Félagsráðsfundur FKS 20. feb. 2007

Fundur í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi,
þriðjudaginn 20. febrúar kl. 11.00 í fundarsal MS Selfossi.


Formaður Sigurður Loftsson Steinsholti setti fund og bauð nýja félagsráðsmenn velkomna og þakkaði fráfarandi félagsráðsfólki, og gekk til dagskrár.


1. Kosningar. Niðurstöður urðu eftirfarandi:
Ritari:  Katrín Birna Viðarsdóttir Ásólfsskála.
Varaformaður:  Katín Birna Viðarsdóttir Ásólfsskála.
Gjaldkeri:  Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey.


5 fulltrúar á aðalfund BSSL:
Sigurður Loftsson Steinsholti,
Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey,
Katrín Birna Viðarsdóttir Ásólfsskála,
Guðbjörg Jónsdóttir Læk,
Arnheiður Dögg Einarsdóttir Guðnastöðum.

5 varamenn:
Gunnar Eiríksson Túnsbergi,
Ágúst Dalkvist Eystra Hrauni,
Birna Þorsteinsdóttir Reykjum,
Sigurður Þór Þórhallsson Önundarhorni,
Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ.


2. Frá síðasta aðalfundi.
Formaður 
ræddi tilhögun kosninga á aðalfundi og taldi þær taka full mikið af tíma fundarins. Velti upp þeirri hugmynd að aðalfundur FKS veiti félagsráði heimild að kjósa fulltrúa á aðalfund LK. Sú aðferð hefur verið reynd í kjöri fulltrúa á aðalfund BSSL tvö síðustu ár og gefist vel, eftir því sem best verður séð. Til að þetta geti orðið þarf hinsvegar  að breyta lögunum LK. Kynnti síðan tillögu frá stjórn að slíkri breytingu fyrir komandi aðalfund LK.
,,Félag kúabænda á Suðurlandi óskar þess að gerð verði eftirfarandi breyting á 5. grein laga Landssambands kúabænda málslið 2. þar sem fjallað er um kjör aðalfundafulltrúa. Greinin hljóðar svona í dag.
,,5.2. Aðalfund sitja með fullum réttindum fulltrúar aðildarfélaganna kosnir á aðalfundum þeirra í leynilegri kosningu”.
Við greinina mætti þá t.d. bæta.
„Sé starfrækt innan viðkomandi aðildarfélags trúnaðarmannaráð, sem kosið er á aðalfundi með framangreindum hætti og innifelur a.m.k. þann fjölda fulltrúa sem félaginu ber, er aðalfundi þess heimilt að vísa fulltrúa- kjörinu þangað.”  


Sigurlaug í Nýjabæ lagðist gegn þessu, taldi þessa breytingu ekki eins lýræðislega og núverandi fyrirkomulag, hins vegar er spurning hvernig megi draga úr tímanum sem fer í  kosningar á aðalfundi.
Guðbjörg á Læk lagði til að félagsráð kjósi fólk til setu á aðalfund LK
Grétar í Þórisholti og Ragnar í Birtingaholti studdu tillögu stjórnar.
Þórir á Selalæk fannst það jákvætt að fækka kosningum til að hafa meiri tíma í önnur mál á aðalfundi.
Formaður sagði markmið þessarar breytingar einvörðungu að opna fyrir þann möguleika að vísa kjörinu til félagsráðs. Ákvörðun þar um verði hins vegar alltaf í valdi aðalfundar, eins og gert er ráð fyrir í lið d, 6.grein,  samþykkta félagsins. Lagði til að tillaga verði send sem fyrst svo hægt verði að kynna hana tímanlega fyrir aðalfund LK sem verður 13. apríl n.k. 
Samþykkt af fundarmönnum.


Formaður sagði að tillögurnar sem samþykktar voru á aðalfundi FKS  hefðu verið sendar til viðkomanda aðila og einnig til LK.
Sagði skelfilega þróun á kjarnfóðurverði sem hafi nánast einvörðungu verið upp á við á síðasta ári þrátt fyrir niðurfellingu tolla af hráefnum til þessa iðnaðar síðasta sumar. Bað Runólf að útskýra samantekt sem hann vann nýlega um þetta efni.
Runólfur bar saman verð á kúafóðri frá FB frá 1. sept 2005 til 15. febrúar  2007 í samanburði við afurðarstöðvarverð á mjólk og vísitölu neysluverðs.
Verð á FB-16  hefur hækkað um 25,7%  og FB-20 um 25,8%  meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað sama tímabil um 9,7%, afurðarstöðvarverð 7,4%,  og þá er miðað við lægstu mögulegu verð á kjarnfóðri með magnafslætti án flutnings.
Jóhann í Stóru Hildisey  taldi að hluti hækkunar kæmi til vegna þess að fiskimjöl hafi hækkað geysimikið síðustu misseri.
Sigurður á Önundarhorni velti því upp hvort fóður og áburður séu í einni körfu í sölunni hjá FB, þar sem mikill afsláttur sé á áburði en dýrt fóður.
Sigurlaug í Nýjabæ taldi bullandi tap á áburðasölu.
Bóel á Móeiðarhvoli velti því fyrir sér hvort  bændur hafi ekki breytt fóðurgjöf, og þá minnkað erlent fóður vegna kostnaðar.
Ólafur í Geirakoti taldi að menn þyrftu að skoða verð á kjarnfóðri við verð á mjólkurlíter, þegar kúabændur væru að velta fyrir sér hvort draga ætti úr kjarnfóðurgjöf. 
Formaður taldi að þrátt fyrir hækkanir á fóðurverði gildi sömu forsendur og áður, þ.e. hversu margar krónur fáist í auknum afurðum fyrir hverja krónu sem lagt er út fyrir í aðkeyptu fóðri. Sagði þessar miklu kostnaðarhækkanir slæmar á tímum verðstöðvunar afurða. Þó  svo launaliður búana sé bættur, þá stefni í að sá hluti fari allur á móti kostnaðarhækkunum og vel það.
Guðbjörg á Læk sagði að það virtist  dýrara að flytja fóður en mjólk í Flóann.
Jóhann í Stóru Hildisey sagði að þar komi  jöfnunargjald á mjólkurflutninga vegna lengri leiða. Það sé með ólíkindum að verð geti verið 20% lægra á kjarnfóðri hjá nýjum aðilum sem eru að flytja inn fóður. Ef svo er, þá ættu þeir sem fyrir eru að geta lækkað verð, þeir eru með allt til alls, dreifingu, búnað og húsnæði.
Runólfur tók undir það, athuga þarf þó að prótein sé ekki sambærilegt í tilbúnum innfluttum blöndum, þar sem um er að ræða jurtaprótein annars vegar og hins vegar dýraprótein. Enn sem komið er, þá er fóðrið flutt í sekkjum hjá SS, eðlilega er verð á fóðri hér dýrara en í Danmörku þar sem fóðrið sé flutt yfir hafið. Önnur fyrirtæki munu einnig hefja innfluning á fóðri bráðlega.
Jóhann bað Runólf að taka saman mun á fóðurverði og hins vegar áburðarverði hér og í Danmörku því það séu engin rök fyrir því, né flóknara að flytja inn fóður en áburð.
Runólfur segir sjálfsagt að gera það við tækifæri. Þessi staða geti ekki gengið mikið lengur því svona hækkanir á kjarnfóðri hljóti að taka í, einnig hafi áburður hafi hækkað mikið milli ára.
Valdimar í Gaulverjabæ sagðist hafa rætt á deildarfundi hjá MS um kaup FB sem voru vægast sagt umdeild og forstjórinn sagði þessi kaup hafa verið gerð til að verja okkur framleiðendur !
Þórir á Selalæk sagði að engin samkeppni væri til staðar, verðið bara sett upp, enginn segi neitt, fóðursíló séu sett upp hjá mönnum, merkt fóðursala og óbeint verið að tryggja kaup hjá viðkomandi bónda, siðfræðilega er bóndinn merktur, vill að hægt sé að fá tilboð í fóður og sjá þá einhverja lækkun sem er ekki hægt að fá í dag á þessum markaði sem fyrir er.
Sigurlaug í Nýjabæ sagði frá reynslu sinn varðandi tilboð á mjólkurdufti, verðmunur varð verulegur. 
Fundarmenn töldu að tilboð sé hægt að fá í flestar vörur nema kjarnfóður.
Formaður  sagði að miðað við reynslu síðasta árs sé hæpið að nokkuð afgerandi gerist í þessu efni fyrr en raunverulegur innflutningur frá fleirum fóðursölum verði að veruleika.
Sigurður Þór á Önundarhorni spurði hvort hægt sé að hvetja til að MS selji sinn hlut í FB og hvort hægt sé að þrýsta á breytingu.
Ólafur í Geirakoti sagði að verðlagning á fóðri tæki greinlega mið af verðlagningu á vatni hér á landi, þar væri hægt að selja neytendum líter af vatni á 150 krónur ! Á sama hátt væri greinilega hægt að verðleggja kjarnfóður og bændur keyptu án þess að spyrja um verðmyndun !
Grétar í Þórisholti sagði að þrýst hefði verið á stjórn MS að selja strax í FB, þá komu þau rök að enginn hagnaður yrði ef selt yrði strax, það væri skylda stjórnar að selja með hagnaði og töldu það möguleika með því að selja í rólegheitunum.


Stjórn tók að sér að senda MS ályktun um að selja hlut sinn í FB með tilheyrandi greinargerð.

Matarhlé kl:12:21 til 12:55 í boði MS.


Formaður gaf Sigurlaugu orðið þar sem hún þurfti fljótlega að yfirgefa fundinn.
Sigurlaug í Nýjabæ lagði til að samþykkt yrði tillaga sem færi á aðalfund LK um breytingu á prósentu á blautvigt sem er eins í öllum nautgripasláturhúsum og á alla flokka, leggur til að breyta úr 3% í 1,5-1,7%. Hún sagði þessa prósentu engan veginn geta staðist, rýrnunin sé misjöfn eftir húsum því kæling og rakastig sé mismunandi.
Ágúst á Eystra Hrauni  spurði hvort ekki sé hægt kanna hver raunveruleg tala er.
Formaður taldi mjög eðlilegt að þetta sé skoðað, reglulega prufað og þá leiðrétt.
Fundarmönnum bar saman um að skoða þetta í þaula, og kannski eðlilegast sé greitt sé fyrir blautvigt.
Formaður óskar eftir að þetta verði skoðað og tekið fyrir á næsta fundi fyrir aðalfund LK.
Ræddi síðan erindi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur formanns Samfylkingarinnar á síðasta aðalfundi. Taldi að ágæt svör hefðu fengist við mörgu því sem á mönnum brann eftir útkomu fréttatilkynningar flokksins frá í haust, svo og þingsályktunartillögu sem henni fylgdi um leiðir til að lækka matvælaverð. Raunin er sú að boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessu efni, frá liðnu hausti, eru um margt samhljóða tillögum Samfylkingarinnar, þó sannarlega beri í milli varðandi nokkur mikilvæg grundvallar atriði.
Sagðist ósáttur við hversu frjálslega hún fór með mikilvægar tölulegar upplýsingar um greinina. Telur það sýna að flokkurinn sé of í litlum tengslum við þessa atvinnugrein og það þurfi að bæta.
Sagðist hafa rætt við fylgisveina Ingibjargar á fundinum og þar hefði komið fram gagnrýni á það hversu mikill undirliggjandi kostnaður er í kvótaviðskiptunum. Óttast að stuðningskerfi okkar liggi vel við höggi vegana þessa. Telur út frá þessu sé nauðsynlegt að velta fyrir sér hvort og þá hvernig við getum haldið stuðningnum á framleiðslunni án kvótakerfis.
Ólafur í Geirakoti sagði Ingibjörgu hafa staðið sig vel, hún hafi minnst á Valdimar Einarsson sem fór víða með fundi um mjólkurframleiðslu og fleira og kom mönnum til að hugsa um kvótakerfið, hvort  það væri til eilífðar og hvernig væri best að slútta því. Valdimar virtist mjög fróður um heimsverslunarmál í landbúnaði.
Grétar í Þórisholti sagði skrýtið hvað Ingibjörg Sólrún sagði háar tölur í stuðningnum í landbúnaði en Runólfur hefði leiðrétt það á fundinum en hún svarað því að hún hafa fengið þessar upplýsingar hjá Bændasamtökunum.
Valdimar í Gaulverjabæ tók undir það hvað það sé nauðsynlegt að leiðrétta tölur sem eru í gangi eins og Runólfur gerði á aðalfundinum því 4 þús. milljónir skipta máli í umræðunni. Þess vegna var gott að fá hana á fundinn til að leiðrétta. Ótrúlegt að ætla að afnema tolla nánast á einu sumri, þó má meta að Ingibjörg Sólrún þakkaði fyrir verðstöðvunina sem við tókum á okkur og miðað við áróðurinn sem gengur núna þá gæti þetta hafa verið rétt ákvörðun.
Formaður sagði gott að heyra hjá Ingibjörgu að til greina kæmi að viðhalda hluta tollanna reyndist það lífsnauðsyn fyrir ákveðnar búgreinar. Stefna Samfylkingarinnar væri hins vegar að ganga í Evrópusambandið og þó það væri í eðli sínu tollabandalag, væru markaðir þar galopnir innbyrðis.
Finnskir mjólkurframleiðendur hefðu lifað af inngöngu í ESB. Það hefði þó kostað gríðarlegan tekjusamdrátt hjá bændum, sem þó virtist ekki skila sér alla leið til neytenda í lækkuðu vöruverði. Þrátt fyrir hið dýra og margrómaða styrkjakerfi Evrópusambandsins, þá greiða Finnar sjálfir stærstan hluta þess byggðatengda stuðnings sem bændur þar njóta.
Líklegt er að íslenska ríkið þurfi sjálft að leggja talsvert meira til landbúnaðaris en fengist úr styrkjakerfi ESB við inngöngu, eigi stéttin að lifa af.
Jóhann í Stóru Hildisey sagði stuðninginn mismunandi eftir landssvæðum í Finnlandi.
Runólfur sagði að íslenska ríkið þyrfti fyrst að borga sig inn í ESB og þurfi svo til viðbótar að greiða sjálft til að halda landbúnaði áfram hér á landi, sagðist ekkert sannfærður um að þegar menn sjái þessar upphæðir í stuðning, að þá verði allir tilbúnir að greiða þessa fjármunir til stuðnings einstökum greinum.
Formaður segir sennilegt að íslensk sauðfjárrækt muni eiga auðveldara með að lifa við styrkjakerfi ESB en mjólkurframleiðsla eins og málum er nú háttað.
Birna á Reykjum þakkaði formanni og stjórn fyrir skipulagða boðun Ingibjargar með erindisbréfi,sem skilaði sér mjög vel á stuttum tíma hennar á fundinum. Finnst viðhorfið á kvótakerfinu hafa breyst mikið á undanförnum þremur árum þar sem allir geta framleitt og selt, spyr hvernig stýring verða ef kvótinn yrði tekinn af, yrði stuðningurinn greiddur á innlagðan lítra eða hvernig útfærður?
Formaður sagðist ekki hafa á taktinum neinar patentlausnir á því. Í garðyrkjunni er greitt út á alla framleiðslu í völdum tegundum. C greiðslan hjá okkur er ekki bundin kvótanum heldur framleiðslu viðkomandi mánaða, ef til vill má nýta þá aðferð að einhverju leyti. Mikilvægt að greinin sjálf hafi frumkvæði í þessari umræðu.


Ágúst á Eystra Hrauni sagði að fyrir fimm árum var kvótinn nauðsynlegur en ekki núna þar sem framleiða má eins og við viljum og staðan nokkuð góð. En ef ekkert aðhald yrði með beingreiðslum, væri þá ekki sama kerfi eins og hjá sauðfjárbændum, kaup á beingreiðslum hver af öðrum, ekkert bundið við innlagðan lítra.
Gunnar á Túnsbergi sagði það gífurlega dýrt fyrir stéttina að hafa kvótann en það hafi þó gert mönnum kleift að hætta og sér ekki alveg leið út úr þessu. Mjólkuriðnaðurinn ætlar að borga fyrir alla umframmjólk. Það þurfi að halda utan um kvótann sem er til staðar svo hann verði ekki einskis virði.
Guðbjörg á Læk sagði mikla fjárfestingu bundna í kvóta og þetta væri alveg ný hugsun en sér ekki leið út.
Jóhann í Stóru Hildisey  sagði að þetta væri ný staða, kallað væri eftir sem mestri framleiðslu og framleiðslan er að aukast. Spurningin sé einnig hvernig þessi aukning dreifist  til framleiðenda til framtíðar. Í raun hafa þeir bændur sem framleitt hafa umfram greiðslumark sitt gefið iðnaðinum möguleika til aukinnar sölu, án þeirrar mjólkur hefði ekki verið hægt að sinna henni.Eðlilegt væri því að spyrja hverjir eiga aukninguna, verður henni dreift jafnt á alla með greiðslumark ? Sagði alla umræðu um þetta í okkar hópi hljóti að vera góð, frekar skortir þor að ræða þessi mál, því flestir hafa skoðun á þessum málum.
Runólfur sagði þessa umræðu vera vandmeðfarna. Stuðningurinn er fyrst og fremst til að framleiða á innalandsmarkað og hvað þá með útflutning ?
Formaður sagði brýnt að ræða þetta. Nú er mikil bjartsýni á Bandaríkjamarkað og Færeyjamarkaður að opnast. Hvað ef þessi útflutningur væri farin að nema einhverjum 5-6 milljón lítra, en síðan fylgdi auknum innflutningi mjólkurvara sölusamdráttur innanlands og greiðslumarkið lækkaði. Hver á þá að taka á sig skerðinguna, sá sem framleiddi útflutningsmjólkina eða greiðslumarkshafarnir. Þarna skiptir miklu máli hver tekur á sig áhættuna á útflutningnum, verður það eingöngu iðnaðurinn eða líka framleiðendur ?
Eins er mikilvægt að skýra hvernig staðið verður að uppgjöri innleggjenda hjá Mjólku. FKS og MBB sendu landbúnaðarráðuneytinu erindi um þetta efni í desember 2005 og þrátt fyrir ítrekanir hafa engin svör borist. Ráðuneytinu er það þó skylt samkvæmt stjórnsýslulögum og spurning hvort ekki sé rétt að árétta þetta erindi enn í von um að ekki þurfi að birta þeim stjórnsýslukæru.
Guðbjörg á Læk spurði þegar þessi samkeppni sé komin á markaðinn, hvort verðlagsnefndin sé ekki óþörf í dag.
Formaður sagði opinberu verðlagninguna farna að vinna á margan hátt móti okkur þar sem mikilvægir vöruflokkar eru undirverðlagðir á kostnað annarra. Hins vegar hafi því verið haldið fram að tollamúrarnir og opinbera verðlagningin hangi saman og auðvitað er eitthvað til í því.
Jóhann í Stóru Hildisey sagði allt hanga saman, opinber verðlagning á heildsölustigi og búvörulög, sem hefur gert mjólkurframleiðslunni kleift að sameinast eins og hefur gerst.
Þórir á Selalæk taldi að okkur stafi meiri ógn á pólítskri afstöðu til landbúnaðar hér á landi en flestu öðru.
Formaður sagði að til skamms tíma hafi verið talið að okkur stæði helst ógn af slæmri niðurstöðu WTO viðræðna. Sennilega er þó rétt að okkur sé meiri hætta búin af fálmkendum aðgerðum stjórnvalda vegna ágangs þrýstihópa og fjölmiðla
Birna á Reykjum nefndi dæmi um hvernig stuðningur gæti breyst óháð framleiðslu en það væru 43 milljónir í sauðfjársamningum sem ætlaðar eru í eitthvað allt annað en framleiðslu – samt væri þetta kallaður stuðningur við greinina.


3. Frá liðnu Fræðaþingi og komandi Búnaðarþing.
Formaður
sagði frá Fræðaþingi sem saman stóð af mörgum málstofum með ýmsum spennandi umfjöllunarefnum. Mörg erindanna í þessum málstofum, sem gaman hefði verið að hlýða á, hefðu þó hitt á sama tíma og væri það nokkur galli. Sagðist hafa sótt þarna málstofu um þverfaglega skipulagsvinnu, þar sem fjallað var um samspil jarða- og skipulagslaga og möguleika sveitarfélaga til að hafa áhrif á landnýtingu, atvinnu og byggðaþróun innan þess ramma. Þarna er í raun um mjög stórt mál að ræða fyrir möguleika hins hefðbundna framleiðslulandbúnað til framtíðar litið.
Fyrir Fræðaþing var haldin samráðsfundur ráðunauta og bað hann Runólf að fara yfir það helsta sem þar kom fram.
Runólfur sagði að kynnt hafi verið fóðurmatskerfi sem taka eigi upp eftir einhver misseri  í nautgriparæktinni. Grétar Hrafn hafði kynnt fóðrun mjólkurkúa.
Þá var haldið málþing um ráðgjafastarfsemina í landbúnaðinum. Athygli vakt að enginn notandi þjónustunnar var til staðar á þessu málþingi. Gat um nokkur atriði úr pistli sem hann flutti á málþinginu þar sem hann lagði til að þjónustan yrði ekki lengur lagskipt, heldur ein þjónusta á landsvísu. Telur ekki miklar breytingar framundan miðað við viðhorf yfirstjórnar. Fannst vanta að hlustað sé á grasrótina, taldi þörf á faglegri tengingu við Landbúnaðarháskólannn.
Grétar í Þórisholti fannst miður hvað langt sé á milli ráðgjafanna úti á landi og hins vegar landsráðunauta Bændasamtakanna, þar sem ætti að vera mikil samvinna.
Fundarmenn ræddu mikið um ráðgjafaþjónustuna í landbúnaði og nauðsyn að bændur fái að taka þátt í svona umræðum rétt eins og bændur vilja fá ráðgjafa til sín heim á búin.
Jóhann í Stóru Hildisey segir nauðsynlegt að komast út úr tvöfalda kerfinu og frekar að fara í verktakaþjónustu í ráðgjafaþjónustunni sem gæti orðið sjálfbær, er hræddur um að bestu ráðunautarnir fari út úr geiranum eins og fyrirkomulagið er í dag.
Runólfur sagðist vilja leggja áherslu að hver grein hefði ákveðna sýn (stefnumótun) í ráðgjafastarfi og síðan unnið í samræmi við þá stefnu sem tekin væri á hverjum tíma.
Á landinu eru 6 leiðbeiningaþjónustur og öll með framkvæmdarstjóra stjórn og annað sem fylgir.
Gunnar á Túnsbergi spurði hvort Búnaðarþing hafi algörlega með þessi mál að gera.
Birna á Reykjum sagði að það sé ekkert farið eftir því sem kemur fram á Búnaðarþingi.
Formaður benti á að á Búnaðarþingi hefði ítrekað verið lagt til að dregið yrði úr starfsemi  byggingarsviðs. Annað hafi komið á daginn og nýbúið væri að ráða starfsmann þar.


Þórir á Selalæk gagnrýndi jarðabóta- og þróunarstyrki, sérstaklega  hvernig framkvæmd er á hreinsunarátaki í sveitum.
Fundarmenn tóku undir það m.a. framkvæmd á fegrunarmálum.
Formaður lýsti starfsháttum Búnaðarþings. Sagði miklar breytingar í umhverfi mjólkurframleiðenda, mikil samþjöppun hefði átt sér stað í mjólkuriðnaði sem gerði enn frekar kröfu nú en áður á góða tengingu SAM og LK. Enda bændur og iðnaður hvor öðrum háðir. Vaxandi umræða um formbreytingu stuðnings, hafi haft í för með sér vaxandi þrýsting á að gerður verði einn heildarsamningur við landbúnaðinn. Mikilvægt er við þessar aðstæður að tenging þeirra búgreina, sem mest eiga undir opinberum afskiptum, sé góð við stjórn BÍ, þannig að sátt náist um framtíðar stefnumörkun landbúnaðarins. Í ljósi reynslunnar sé því nauðsynlegt að stjórnarmaður í LK sitji jafnframt í stjórn Bændasamtakanna og því hafi hann ákveðið að gefa kost á sér til þeirra starfa.
Jóhann í Stóru Hildisey lýsti ánægju sinni um framboð Sigurðar til stjórnar Bændasamtakanna. Varðandi  jarðabóta- og þróunarstyrki, þar eru reglur óljósar.


4. Önnur mál.
Sigurður á Önundarhorni
spurði um úrvinnslugjald á plasti, er ósáttur að bændur sem greiða það í byrjun fái það ekki, heldur einkaaðilar.
Formaður segir úrvinnslugjaldið fyrst og fremst ætlað til að ýta undir endurvinnslu plastsins, en ekki hugsað sem skilagjald.
Ragnar í Birtingaholti lýsti ferlinu á plastsöfnun hjá Sagaplast á Akureyri.
Ólafur í Geirakoti lagði til að allir söfnuðu plasti til að hita dvalarheimilin.


Formaður sagði að á síðasta samráðsfundi félagsráðs og BSSL hafi verið rætt hvernig haga mætti tengingu greinarinnar  við starfið á Stóra- Ármóti eftir að tilraunanefndin var lögð af. Ræddi nokkra möguleika í þessu sambandi
• Láta nægja að fara ítarlega í starfsemi stöðvarinnar á árlegum samráðsfundum BSSL og FKS.
• Að félagsráð eða hluti þess fundi árlega með tilraunastjóra og forsvarsmönnum BSSL, þar sem farið væri ítarlega í starfsemi og rekstur búsins.
• Að FKS fái áheyrnarfulltrúa í stjórn stöðavarinnar.


Ragnar í Birtingaholti taldi betra að færri setjist á fund með aðilum St-Ármóts. Margt er gert og mikið unnið en vantar að koma upplýsingunum á framfæri til almennings.
Runólfur tók í sama streng og segir það skorta tíma til að koma því áleiðis.
Jóhann í Stóru Hildisey sagði að mjög gott væri að fundað yrði einu sinni á ári með nokkrum aðilum og tekur undir það að mannskap vanti til að ljúka vekefnum.
Guðbjörg á Læk spyr hvort sé eðlilegt að sama stjórn sé BSSL og fyrir St-Ármót.


Arnheiður á Guðnastöðum spyr um eftirlit á gæðum og innihaldslýsingu í kjarnfóður innflutningi.
Runólfur sagði það fara í ákveðið ferli og eftirlit.
Gunnar á Túnsbergi sagði að fram hafi komið á aðalfundi  BSSL að misbrestur hafi verið á  áburðareftirliti, líklegt að það gæti líka verið varðandi kjarnfóður.
Jóhann í Stóru Hildisey spurði um eftirlit í mjólkurframleiðslu, hvort þurfi að greiða gjaldið þrátt fyrir enga skoðun.


Helga í Skeiðháholti spurði um klaufskurðarbásinn sem Kynbótastöðin ætlaði að kaupa.
Ragnar í Birtingaholti sagði að hann kæmi með vorinu.


Formaður þakkaði fundarmönnum góðan fund og sleit fundi kl. 15:40.


Fundarritari Katrín Birna Viðarsdóttir.


back to top