Sumir bændur ósáttir við að þurfa að setja kýrnar í haga

Bændur eru sumir ósáttir við að neyðast til að setja kýr sínar á beit út í haga. Bændasamtökin eru hins vegar einbeitt í að halda þeirri reglu til streitu að beljur fái að viðra sig úti – þótt víða í Evrópu séu bændur jafnvel hættir útibeit.

Þegar fólk af malbikinu keyrir um þjóðvegi landsins finnst mörgum tilheyrandi og fagurt að sjá blómlegar kýr á beit í haga. Raunar er það svo að, bændum ber, að hleypa kúm úr fjósi minnst átta vikur á hverju sumri. Þó ku liðin tíð, að nokkru leyti að það sé jafn ærslafengin sjón og áður að sjá beljurnar sleppa út á vorin. Því tölvustýrð lausagöngufjós eru gerólík fjósum fortíðar þar sem kýr voru bundnar á sínum bás. Formaður Bændasamtakanna kveðst ekki hafa sannreynt að til séu bændur sem ekki hleypi kúm út úr fjósi.

Nokkur umræða hefur verið um lausagöngu kúa í Bændablaðinu. Þar hefur komið fram að þeim fjölgar evrópsku kúnum sem aldrei koma út undir bert loft. Tæp fimmtán prósent stofnsins í Hollandi fer aldrei út – og tæplega þriðja hver dönsk kýr fer aldrei út undir bert loft og syðst í Þýskalandi er 80-90% kúa aldrei hleypt úr fjósi. Lagaskylda um útibeit kúa mun aðeins vera í tveimur löndum, Íslandi og Svíþjóð. Hins vegar er útibeitin víða talin nauðsynlegur hluti af ímynd mjólkurframleiðslunnar. Eða eins og Torfi Jóhannesson ráðunautur hefur sagt þá má líta svo á „kýrnar séu eins og stórt auglýsingaspjald fyrir framleiðsluvörur bænda.“


back to top