Bújörðum í framleiðslu fækkar

Jörðum þar sem stunduð er búfjárframleiðsla fækkaði um 57 eða 7,2% á Suðurlandi á sex ára tímabili. Á sama tíma fjölgaði lögbýlum í ábúð um 4,1% eða 49 talsins.
Bændasamtök Íslands samþykktu í fyrra að láta kanna og greina þróun á eignarhaldi á bújörðum og meta áhrif hennar á búsetu og byggðaþróun. Niðurstaðan liggur nú fyrir. Skýrsluhöfundar segja að ljósin á bæjum til sveita virðist fjarri því að slokkna jafnhratt nú og var á milli áranna 1980 og 2000.
Í skýrslunni kemur glögglega fram að lögbýlum, þar sem stunduð er búfjárframleiðsla hefur fækkað, en þessar athuganir miðuðust við árin 2001 til 2006. Í upphafi ársins 2001 var stunduð búfjárframleiðsla á 789 bújörðum á Suðurlandi. Sex árum síðar voru bújarðirnar 57 færri eða 732. Samdrátturinn er um 7,2% en á landinu öllu var samdrátturinn 8,7%. Á sama árabili fjölgaði lögbýlum í ábúð úr 1.204 í 1.253 eða um 4,1%.

Í skýrslunni er einnig reynt að varpa ljósi á umfang viðskipta með lögbýli. Þar kemur fram að á Suðurlandi hafa á bilinu 6-11% jarða skipt um eigendur á ári hverju og mest voru viðskiptin á árinu 2006 eða 11% allra jarða. Aðeins á höfuðborgarsvæðinu skipti hærra hlutfall jarða um hendur eða 12% og á Austurlandi var hlutfallið hið sama. Á landsvísu voru viðskipti með 8% allra jarða á árinu 2006.


Í lokaorðum skýrslunnar kemur fram að ýmsum spurningum sé ósvarað um þróun á eignarhaldi jarða. Þannig hefur orðið mikil fjölgun á lögaðilum sem eiga í lögbýlum og kaup fjárfesta á lögbýlum er mikið til umræðu í þjóðfélaginu enda er land og ekki síst landbúnaðarland mikilvæg auðlind sem sífellt er gengið á í heiminum.


Þar verður að taka undir með skýrsluhöfundum ekki síst með hliðsjón af aukinni eftirspurn og hækkandi verði á matvælum í heiminum. Það er ekki sjálfgefið að aðgengi að matvælum á heimsmarkaði verði jafngreitt í framtíðinni og það er nú og því mikilvægt fyrir Íslendinga að móta sér stefnu varðandi landnot almennt. Að hafa í sig og á er og verður mikilvægasta auðlind mannkyns þrátt fyrir allt.

Skýrsla um eignarhald á jörðum, framleiðslu og þróun hennar 


back to top