Lögbýlum fækkar og framleiðsla hvers og eins eykst

Lögbýli með greiðslumark í mjólk voru alls 1246 árið 1997 og meðalinnlegg hvers býlis tæplega 82 þúsund lítrar. Árið 2006 voru býlin orðin 796 með tæplega 148 þúsund lítra meðalinnlegg. Á sama hátt voru 2.405 sauðfjárbú með greiðslumark árið 1997 og heildarframleiðsla kindakjöts var 7.903 tonn. Árið 2006 voru býlin hins vegar 1.601 og heildarframleiðslan var komin upp í 8.647 tonn.

Þetta kemur m.a. fram í nýrri skýrslu, um þróun eignarhalds á bújörðum, sem Bændasamtökin hafa gefið út. Segir þar, að sífellt færri bú og hendur standi þannig undir framleiðslunni sem til viðbótar hafi heldur aukist á ný, m.a. vegna aukinnar innanlandssölu.


Þá kemur fram í skýrslunni, að hægt hafi á fækkun jarða í ábúð. Engar sterkar vísbendingar komi fram um jarðasöfnun einstaklinga þar sem ekki sé hægt að greina verulega fjölgun í hópi þeirra sem eiga margar jarðir. Á hinn bóginn fjölgi jarðeigendum mjög, sem bendi til þess að deilt eignarhald verði stöðugt útbreiddara. Þá hafa jarðir hækkað í verði.Þá er land lögbýla í vaxandi mæli skipulagt undir aðra starfsemi, einkum frístundabyggð. Sú spurning hefur vaknað hvort þörf sé á að gera einhverjar ráðstafanir til að tryggja að ekki verði gengið á besta landbúnaðarlandið og það skipulagt og tekið undir önnur not.

Föstudaginn 23. nóvember kl. 11:00 verður haldinn kynningarfundur á skýrslu um þróun eignarhalds á bújörðum. Fundurinn verður haldinn á bókasafni Bændasamtaka Íslands á þriðju hæð Bændahallarinnar. Aðgangur er öllum opinn og er áhugafólk um málefnið hvatt til þess að mæta.


back to top