Fyrirheitasöfnun meðal bænda

Í stórbrunanum í Stærra-Árskógi fórust allar mjólkurkýrnar 60 talsins ásamt kvígum, kálfum og fjölda geldneyta. Aðeins 34 kvígur komust undan eldinum. Nú hefur verið efnt til fyrirheita-söfnunar meðal bænda á svæðinu. Öllum mjólkurframleiðendum á samlagssvæðinu var sent bréf fyrir helgina og óskað eftir að þeir sem hefðu tök á, létu af hendi mjólkandi kýr, kelfdar kvígur eða kvígukálfa. Ekki er ætlast til þess að gripirnir fáist endurgjaldslaust en mikilvægt er að gripir séu til staðar um leið og framleiðsla getur hafist á nýjan leik. Vonast er til að fyrirheit fáist um 50-60 mjólkandi kýr, ásamt vænum hópi kelfdra kvígna og hóp yngri kálfa.

Þau Guðmundur Geir og Freydís Inga hafa byggt upp búið af fádæma dugnaði en mikilli uppbyggingu fylgja miklar skuldir sem greiða þarf af þó engin sé innkoman. Tryggingarfélag þeirra, Vátryggingafélag Íslands hf, hefur ákveðið að veita þeim rekstrarstöðvunartryggingu sem þau höfðu óskað eftir. Léttir þetta verulega á þeim fjárhagslega á uppbyggingartímanum og er það fagnaðaefni að tryggingafélög geti sýnt þennan sveigjanlega þegar að sverfur hjá einstaklingum.


Þeir sem hafa tök á að gefa fyrirheit um gripi geta haft samband við Kristján Gunnarsson hjá MS-Akureyri kristjang@ms.is eða Guðmund Steindórsson ráðunaut í Búgarði gps@bondi.is


back to top