Stærsta kúabú landsins í undirbúningi

Stefnt er að því að stærsta kúabú landsins muni rísa á jörðinni Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu síðar á þessu ári. Þegar búið hefur náð fullri stærð verða þar um 500 mjólkurkýr, með framleiðslugetu á hátt á þremur miljónum mjólkurlítra árlega.

Það er fasteignafélagið Lífsval á Akureyri sem ætlar að reka búið. Það er um ár síðan fasteignafélagið keypti jörðina sem það hyggst nota undir kúabúið en landskikinn er um 1.300 hektarar að stærð og þykir henta vel undir kúabú af þessari stærðargráðu. Jörðin var áður í eigu Graskögglaverksmiðjunnar sem þar var starfrækt. Lífsval rekur nú þegar tvö kúabú, í Skriðufelli í Jökulsárhlíð og á Ytrafelli í Eyjafirði.


Samkvæmt heimildum fréttastofu Útvarps var ákvörðun tekin í vetur um að ráðast í verkefnið og er undirbúningur langt kominn. Í fyrstu á að notast við húsnæði sem fyrir er á jörðinni en svo verði búið stækkað í áföngum. Þegar það hefur náð fullri stærð verða þar um 500 kýr og árleg mjólkurframleiðsla á þriðju miljón lítra. Nú þegar hafa eigendur leitað eftir tilboðum í tækjabúnað og frekari húsakost fyrir búið en stefnt er að því að hefja mjólkurframleiðslu á jörðinni um mánaðamótin október-nóvember á þessu ári.


back to top