Smári Tómasson frjótæknir lætur af störfum

Smári Tómasson frjótæknir í Vík lætur af störfum 1. mai nk. Smári hóf störf sem fastráðinn frjótæknir 1. maí 1974 en hafði starfað í sumarafleysingum 2 sumur á undan. Smári hefur því starfað sem frjótæknir í föstu starfi í 42 ár. Starfsvæði hans lengst af var frá Álftaveri í austri, Mýrdalur og Eyjafjöll. Seinni árin hefur svæðið verið frá Vík og Landeyjarnar að mestu. Smári hefur verið afar farsæll í sínu starfi og rekstrarkostnaður bifreiðanna sem hann hefur ekið með því lægsta sem gerist og veikindadagar fáir.
Mikill akstur er á þessu svæði en síðustu árin hefur akstur á þessu svæði verið yfir 70 þúsund km á ári. Ef meðalakstur á ári eru 65.000 km þá er akstur í 42 ár 2.730.000 km. Ef hann hefði sætt 3.000 kýr á ári að meðaltali þá eru það 126.000 sæðingar sem hann hefur framkvæmt á tímabilinu.
Starfstöðin í Vík leggst nú af en svæðinu verður sinnt frá Hvolsvelli en Hermann Árnason tekur við störfum Smára.
Kynbótastöð Suðurlands þakkar Smára fyrir mikil og góð störf í þágu kúabænda á Suðurlandi í rúma fjóra áratugi.


back to top