Sláttur hafinn á Suðurlandi

Sláttur hófst í morgun á bænum Ásólfsskála undir Eyjafjöllum. Að sögn Sigurðar Grétars Ottóssonar, bónda á Ásólfsskála er um að ræða 3,6 ha spildu sem slegin er nú. Í spildunni er blandaður gróður af vallarfoxgrasi og háliðagrasi. Ætlunin er að rúlla heyið.

Sprettutíð hefur verið afar góð síðustu daga en gróður tók vel við sér þegar tók að rigna nú um mánaðamótin. Líklegt er að sláttur hefjist hjá fleiri bændum á Suðurlandi um eða eftir helgi.
 
Í fyrra hófst sláttur 13. júni, einnig undir Eyjafjöllum og árið þar á undan 4. júní. Sláttur hefst því með fyrra fallinu í ár.


back to top