Heimavistin á Hvanneyri fær nýtt hlutverk

Nú er verið að leggja lokahönd á stóran áfanga endurbættrar aðstöðu í Ásgarði, húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands, en þangað verða skrifstofur skólans fluttar í þessari viku. Ásgarður er nýtt heiti heimavistarinnar á Hvanneyri sem einnig gekk um tíma undir nafninu Nýi skóli.

Neðri hæð gömlu heimavistarinnar hefur nú þegar verið breytt á nýstárlegan hátt en þar verður að finna rekstarskrifstofu skólans, skrifstofu rektors, fundarsal og sameiginlegt vinnu– og hvíldarrými starfsfólks. Þá er undirbúningur að framkvæmdum á efri hæð gömlu heimavistarinnar hafinn en henni verður breytt á sambærilegn hátt og mun einnig rýma skrifstofur skólans. Ágúst Sigurðsson, rektor, segir þetta algjöra byltingu fyrir starfsfólk skólans og löngu tímabært að geta loksins komið allri starfseminni undir sama þakið.

Hingað til hefur starfsemin verið dreifð um Hvanneyri. Þá fær hið margfræga græna teppi á holi skólans að fjúka, en það hefur þjónað sínu hlutverki í langan tíma. Holið verður flísalagt og stigagangur dúkalagður. Á næsta ári verður hafist handa við að klæða Ásgarð og endurnýja glugga ásamt því að byrjað verður á C – gangi heimavistarinnar en þar á að útbúa kennslu- og vinnuaðstöðu nemenda.

Innan tveggja ára er reiknað með að viðbygging rísi við anddyri skólans sem hýsa mun fjölnota kennslusali og bókasafn, en þau Þórunn Sigþórsdóttir og Ríkarður Briem frá VA arkitektum vinna nú að tillögum að þeirri byggingu. Þá sagði Ágúst að upp væru komnar hugmyndir um að breyta gamla skólanum í hótel sem væri hið mesta þarfaþing miðað við aukinn ferðamannastraum um Hvanneyri.

Byggt á:
www.skessuhorn.is


back to top