Skýrsla um reynslu af nýlegum legubásafjósum á Íslandi

Landbúnaðarháskólinn hefur gefið út skýrslu um reynslu af nýlegum legubásafjósum á Íslandi í samantekt Snorra Sigurðssonar. Í kynningu segir að þróun í fjósbyggingum hafi verið hröð hérlendis á undanförnum árum með auknum fjölda lausagöngufjósa sem ýmist eru nýbyggingar eða breyttar eldri byggingar. Ljóst er að enn er þó mikil þörf fyrir áframhaldandi þróun á aðbúnaði mjólkurkúa og einnig er þekkt að á liðnum árum hafa litið dagsins ljós fjölbreyttar og oft ólíkar lausnir við hönnun og frágang fjósa landsins. Brýnt var talið að safna saman reynslu bændanna úr þessum ólíku fjósum og miðla áfram til bænda sem huga á framkvæmdir og setti Landbúnaðarháskóli Íslands því í gang verkefnið Betri fjós, en verkefnið var styrkt af Þróunarsjóði nautgriparæktarinnar.

Álit bænda á notkunargildi ólíkra lausna
Markmið verkefnisins var að safna saman reynslu af nýlega byggðum og/eða breyttum fjósum með því að heimsækja bændur, taka viðtöl við þá og gera úttekt á fjósum þeirra þar sem leitast var við að draga fram bæði kosti og galla ólíkra lausna og frágangsaðferða. Markmiðið var ekki að safna saman nákvæmum upplýsingum um breiddir og stærðir, heldur heilt yfir að fá álit bændanna á notkunargildi ólíkra lausna. Þá var jafnframt leitað til ýmissa þjónustuaðila (dýralækna, frjótækna, klaufskurðarmanna og mjólkur-, fóður- og gripaflutningabílstjóra) og fengið álit þeirra á því sem betur má fara varðandi hönnun og frágang á fjósum með þeirra starf í huga. Niðurstaðan er því hugsuð sem einskonar hugmyndabanki þar sem leitast er við að draga fram sameiginleg álit bændanna á ólíkum lausnum.


Kostir og gallar
Haft var samband við nautgriparæktarráðunauta á hverju svæði, auk helstu fjóshönnuða landsins, og fengnar ábendingar um heppileg fjós fyrir úttektina sem uppfylltu kröfur verkefnisins, en stefnt var að því að skoða allt að 40 fjós og ekki minna en 5% starfandi nýlega byggðra fjósa. Aflað var upplýsinga um fjósin og virkni þeirra með bæði spurningarformi og úttekt á aðstæðum og byggt þar á áralangri reynslu LbhÍ við gæðaúttektir búfjárhúsa. Mest áhersla var lögð á að draga fram helstu kosti og/eða galla viðkomandi byggingar, innréttinga og frágangs og niðurstöðurnar svo teknar saman á þessa vefsíðu, sem samanstendur af grunnupplýsingum um hin útteknu fjós, en þó fyrst og síðast af myndaumfjöllun um einstaka hluta fjósanna með skýringartextum.


Um samantekt þessa efnis sá Snorri Sigurðsson, húsvistarfræðingur búfjár við LbhÍ.


Sjá nánar:
Betri fjós – reynsla af nýlegum legubásafjósum á Íslandi


back to top