Sauðfjárbændur misnota ekki kerfið

Ríkisendurskoðun telur ekki ástæðu til að ætla að sauðfjárbændur fái hærri beingreiðslur en þeir eiga rétt á samkvæmt lögum og reglum en fyrr á þessu ári fékk Ríkisendurskoðun ábendingu um að dæmi væru um að sauðfjárbændur fengju hærri beingreiðslur en þeir ættu rétt á. Athugun Ríkisendurskoðunar, sem fjallað er um í nýrri skýrslu, bendir ekki til þess að ábendingin eigi við rök að styðjast.

Í skýrslunni segir: „Vorið 2011 var Ríkisendurskoðun bent á að dæmi væru um að sauðfjárbændur misnotuðu þetta kerfi og að eftirliti með því væri ábótavant. Misnotkunin fælist í því að bændur keyptu greiðslumark án þess að auka við bústofn sinn og fengju þannig hærri greiðslur frá ríkinu án þess að auka framleiðslu sína. Stofnunin aflaði sér upplýsinga og gagna til að kanna hvort ábendingin ætti við rök að styðjast. Niðurstaðan gefur ekki ástæðu til að ætla að farið sé á svig við lög og reglur með nefndum hætti. Ekki verður því um frekari úttekt að ræða að sinni nema nýjar upplýsingar komi fram sem gefi tilefni til þess.“


back to top