Fyrirlestur um rafrænt kjötmat

Eyþór Einarsson heldur opinn fyrirlestur um meistaraverkefni sitt við Auðlindadeild Lbhí, miðvikudaginn 14. desember kl. 15 í Ásgarði á Hvanneyri en það fjallar um rafrænt mat á lambakjöti, sem byggt er á stafrænum myndum af kjötskrokkum (video image analysis; VIAscan®) og viðfangsefnið er að meta notagildi þessarar tækni í sláturhúsum hér á landi. Prófanir á tækninni fóru fram á sláturhúsi kjötafurðarstöðvar KS á Sauðárkróki. Markmið rannsóknarinnar var annars vegar að meta hæfni tækninnar til að spá fyrir um vöðvahlutfall skrokka og að flokka samkvæmt EUROP kerfinu (5 vöðvaflokkar og 6 fituflokkar) sem er núgildandi matskerfi. Hins vegar að meta erfðastuðla bæði fyrir kjötmatsþætti og stigun líflamba með áherslu á að kanna hversu vel líflambamatið tengist rafræna matinu og hvort rafrænt EUROP mat (viaEUROP) og núgildandi EUROP mat (pEUROP) mældi sömu eiginleika.
Meginniðurstöður eru þær að rafrænt kjötmat getur spáð fyrir um vöðvahlutfall og metið í EUROP flokka með nægilegri nákvæmni fyrir íslenskan lambakjötsiðnað. Niðurstöður mats á erfðastuðlum sýna jafnframt að rafrænt EUROP mat getur komið í stað núgildandi matsaðferðar. Rafrænt kjötmat með notkun VIAscan® er því valmöguleiki fyrir íslenska sauðfjárrækt.

Aðalleiðbeinandi Eyþórs er Emma Eyþórsdóttir dósent við Lbhí ásamt Jón Viðari Jónmundssyni ráðunaut hjá Bændasamtökum Íslands og Chris Smith, sérfræðingi hjá Cedar Creek Company í Brisbane í Ástralíu.

Prófdómari er dr. Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri.


back to top