Sæði í 18.440 ær sent frá stöðinni

Í dag var síðasti útsendingardagur á hrútasæði frá Sauðfjársæðingastöð Suðurlands en útsending hófst þann 1. des. s.l. og hefur því staðið samfleytt í 3 vikur. Að þessu sinni var sent sæði í 18.440 ær frá stöðinni sem þýðir að miðað við 70% nýtingu má reikna með að rétt tæplega 13 þús. ær hafi verið sæddar. Þetta er heldur minna en í fyrra og munar þar um 500 ám.
SIgurvegari vertíðarinnar ef hægt er að orða það svo er Hergill 08-870 frá Laxárdal í Þistilfirði en úr honum var sent út sæði í 1.715 ær. Skammt á hæla honum kemur Borði 08-838 frá Hesti í Borgarfirði með útsendingu í 1.700 ær og ekki langt undan er Sokki 07-835 frá Brúnastöðum í Fljótum með sæði í 1.685 ær. Af kollóttu hrútunum var mest sent út úr Stera 07-855 frá Árbæ í Reykhólasveit eða í 1.400 ær.
Pöntun úr einstökum hrútum var óvenju jöfn og nánast undantekningarlaust tókst að sinn pöntunum. Í heildina gekk sæðistaka mjög vel.
Sauðfjársæðingastöð Suðurlands þakkar sauðfjárbændum og öðrum fyrir ánægjuleg og góð samskipti og sendir sínar bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.


back to top