Kadmíum innihald í Spretti alltof hátt

Matvælastofnun hefur birt á heimasíðu sinni skýrslu um niðurstöður áburðareftirlits ársins 2011. Í skýrslunni er að finna niðurstöður efnagreininga áburðarsýna sem tekin voru á árinu. Einnig athugasemdir vegna merkinga áburðarins. Í skýrslunni eru einnig upplýsingar um þær áburðartegundir sem fluttar voru inn eða framleiddar á landinu á árinu.
Af niðurstöðum má nefna að kadmíum innihald áburðar sem Skeljungur flytur inn undir nafninu Sprettur reyndist allt of hátt. Af þrettán sýnum sem tekin voru reyndist kadmíum innihald of hátt í ellefu þeirra, eða í öllum þeim áburðartegundum sem innihéldu fosfór. Innihald kadmíums var í sumum tilfellum ríflega þrefalt meira en leyfilegt er og verður ekki leyft að dreifa þessum áburðartegundum til notenda fyrr en að lokinni sýnatöku og efnagreiningum sem sýni að kadmíum innihald sé innan leyfðra marka.

Breska fyrirtækið Carrs framleiðir áburðinn sem Skeljungur flytur inn. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu reyndist allur fosfór sem notaður var í áburð hjá fyrirtækinu með þeim galla að kadmíum innihald hans var of hátt. Undanfarin ár hefur kadmíum innihald í áburði frá þessum framleiðenda varla verið mælanlegt.


Þá mældust sýni úr tveimur áburðartegundum sem Sláturfélag Suðurlands flytur inn einnig með lítillega of háu kadmíum innihaldi. Tvær tegundir til viðbótar innihéldu einnig of mikið kadmíum innihald en þau mistök uppgötvuðust og var áburðurinn endursendur.


Baneitrað efni
Frumefnið kadmíum er þungmálmur og er að jafnaði nokkuð af efninu í fosfórgrýti sem unnið er til áburðarframleiðslu. Kadmíum er gríðarlega eitrað og safnast fyrir í vefjum lífvera og í vistkerfum. Mesta leyfilegt magn kadmíums í áburði er 50mg/kg fosfórs (P). Óvanalegt er að magn kadmíums sé yfir þeim gildum í áburði á íslenskum markaði, venjan hefur verið sú að það sé langt undir mörkum og oft vart mælanlegt.


Þrjár tegundir áburðar sem Búvís selur reyndust ekki uppfylla kröfur um efnainnihald en ýmist var gildi köfnunarefnis eða brennisteins undir leyfðum vikmörkum. Dreifing umræddra áburðartegunda verður ekki heimiluð fyrr en búið verður að taka sýni og efnagreina til að staðfesta að efnainnihald standist skilyrði.


Fer ekki í dreifingu fyrr en að lokinni efnagreiningu
Samkvæmt upplýsingum frá Valgeiri Bjarnasyni, sérfræðingi hjá MAST, munu innflytjendur þessara áburðartegunda þurfa að koma áburði til landsins fyrr heldur en verið hefur því dreifing þeirra verður eins og fyrr segir heimiluð fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að efnainnihald sé í lagi. Efnagreining tekur að lágmarki tvær vikur en allt eins má búast við að hún taki lengri tíma. Aðspurður um hvort eðlilegt sé að breyta kröfum um áburðareftirlit á þann hátt að ekki verði leyfilegt að dreifa áburði almennt fyrr en áburðareftirlit hefur farið fram sagðist Valgeir telja að slíkt yrði óframkvæmanlegt vegna þess hversu tíminn væri knappur frá því að samningar um kaup á áburði tækjust og þar til nauðsynlegt væri að nota hann.


Þá eru gerðar athugasemdir við merkingar á áburði í fjölmörgum tilfellum. Til að mynda eru gerðar alvarlegar athugasemdir við að merkingar á fjórum tegundum áburðar hjá SS séu þær eingöngu á norsku.


Alls voru fluttar inn 251 tegund áburðar og jarðvegsbætandi efnum á síðasta ári af 27 fyrirtækjum. Þá framleiða þrettán fyrirtæki hér innanlands áburð og jarðvegsbætandi efni. Einkum er þar um að ræða áburð úr lífrænum efnum.


Sjá nánar:
Áburðareftirlit 2011 – MAST


back to top