Rennsli í Ölfusá við Selfoss enn að aukast

Vatnavextir á Suðurlandi eru nú í rénun að mestu en þó er rennsli Ölfusár við Selfoss enn að aukast og nær hámarki síðdegis eða í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Vatnsborð í Hvítá er farið að lækka við Iðu og hefur líklega náð hámarki við Gíslastaði undir Hestfjalli snemma í morgun.

Fram kemur á vef Veðurstofunnar að vatnavextirnir í Hvítá, Ölfusá og Þjórsá um helgina séu þeir mestu frá því í desember 2007. Orsök þessara vatnavaxta nú er mikil hlýindi og mikil rigning á suður- og vesturhluta hálendisins.

Myndin með fréttinni er frá flóði í Ölfusá í desember 2006. Rennslið í ánni nú er hvergi nærri eins mikið og þá.


back to top