Varað við vatnavöxtum

Miklir vatnavextir eru nú á vatnasviði Hvítár í Árnessýsu vegna hlýinda á landinu og úrkomu. Í Auðsholti í Hrunamannahreppi hefur áin flætt yfir bakka sína en ekki meira en venjan er á þessum árstíma. Rennslið í Hvítá við Fremstaver á Kili er margfalt meira en vanalega eða tæpir 430 rúmmetrar á sekúndu og að sögn Veðurstofunnar er ástæðan hlýindi á hálendinu og hröð snjóbráðnun þar. Veðurstofan lét Almannavarnir Árnessýslu, það er lögregluna, vita á miðnætti og varaði við vatnavöxtum.
Samkvæmt vatnamælingakorti Veðurstofunnar er mjög mikið rennsli víða, svo sem í Tungufljóti, Brúará og Ölfusá á Suðurlandi.
Í desember 2006 urðu mikil flóð í kjölfar hlýinda og úrkomu á Suðurlandi og mörg tún fóru á kaf, nokkrir bæir lokuðust af, samgöngur fóru úr skorðum og stöðuvatn mynduðust tímabundið. Tjónið var verulegt. Í kjölfar flóðanna var vatnsvöktun styrkt verulega og bætt við vatnamælum.

Meðafylgjandi mynd er tekin við Ölfusárbrúna á Selfossi í flóðunum í des. 2006.


back to top