Örmerki gerð að skyldu?

Evrópusambandið hefur frestað því að skylt verði að merkja allt sauðfé og geitfé með rafrænu örmerki. Samkvæmt núgildandi reglugerð stóð til að örmerkin yrðu almenn skylda frá og með 1. janúar næstkomandi en nú er ljóst að það dregst um minnsta kosti ár.

Samt sem áður er stefnan sett á að rafrænu örmerkin verði skylda innan Evrópusambandsins á árinu 2009.  Í ljósi þess kann að vera að sú skylda verði einnig lögð á íslenska bændur í framhaldinu þar sem núgildandi reglugerð um merkingar búfjár (nr. 289/2005) er byggð á reglugerð ESB um sama efni. Bændur innan ESB eru margir hverjir mjög óánægðir með málið vegna mikils kostnaðar, en skv. upplýsingum sem ESB miðar við kosta merkin allt að 180 ísl. kr. nú um stundir.  Þann kostnað verða bændur að bera skv. tillögum ESB.  Jafnframt verður áfram að merkja féð með hefðbundnu merki, svipað og skylt er hér á landi. 


Undanþágur munu þó verða frá reglugerðinni en aðildarlöndum ESB þar sem eru færri en 600.000 fjár eða er heimilt að sleppa því að gera nýju merkin að skyldu, nema að gripir séu seldir til annarra ESB landa á fæti.  Ekki er ljóst hvort að þar er átt við vetrarfóðraðar kindur sbr. íslenska flokkun eða fé almennt, en við fyrstu sýn virðist vera átt við heildarfjárfjölda.  Allt að einu mun það skipta máli fyrir Íslendinga þar sem fjöldi vetrarfóðraðra kinda hér er langt undir 600 þúsund en fjöldinn fer auðvitað yfir þá tölu á sumrin.   


Jafnframt er heimilt að sleppa því að merkja lömb sem slátra á fyrir 12 mánaða aldur og ekki eru seld lifandi úr landi.  Þau verður þó að merkja með hefðbundnu merkið í a.m.k. annað eyrað sbr. núgildandi reglur.


back to top