Afnám verðtryggingar algerlega ótímabært

Við núverandi aðstæður er enn síður vænlegt en áður að huga að afnámi verðtryggingar fjárskuldbindinga vegna þess mikla óróa sem er á fjármálamörkuðum bæði á Íslandi og erlendis. Þetta er álit Gylfa Magnússonar, dósents við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

„Það er algjörlega ótímabært,“ segir hann. „En það er annað mál að vel getur verið að þetta sé eðlilegt langtímamarkmið,“ bætir hann við. Að sögn Gylfa þarf þó að huga að því hvað átt er við þegar talað er um afnám verðtryggingar.


,,Verðtrygging er algeng á íslenskum lánsfjármarkaði og algengari en víðast hvar annars staðar, sérstaklega á lánum til langs tíma. Þegar talað er um afnám verðtryggingar hljóta menn að vera að vísa til þess að þeir vilji draga úr henni. Það væri hins vegar mjög langt gengið að ætla að banna verðtryggingu með öllu. Hún er í sjálfu sér bara valkostur fyrir bæði lánveitendur og lántakendur og ef þeir sjá sér hag í því að hafa verðtryggð lán, er erfitt að sjá af hverju hið opinbera ætti að banna það,“ segir Gylfi og að ógjörningur sé að ætla að verðtrygging yrði afnumin af lánum sem þegar hafa verið veitt.


„Ég held að menn séu líka dálítið að hengja bakara fyrir smið ef svo má að orði komast vegna þess að vandamálin eru tvö og nátengd. Annars vegar háir vextir og hins vegar mikil verðbólga og við þau skilyrði er lántaka mjög dýr. En það er mikil einföldun að kenna verðtryggingunni um það. Mikil verðbólga og mjög háir vextir gera að verkum að það er mjög dýrt að taka lán í íslenskum krónum og því verður ekkert breytt með því að banna verðtryggingu. Slíkt gerði illt verra.“


Gylfi segir að það kunni þó að vera skynsamlegt langtímamarkmið að reyna að koma á það miklum stöðugleika að verðtrygging verði að mestu óþörf og eingöngu notuð í undantekningartilfellum. ,,Það þekkjast t.d. verðtryggð skuldabréf í Bandaríkjunum en þau eru mjög lítið notuð og það gæti vel verið að svipað yrði upp á teningnum hér ef næðist mikill stöðugleiki og þá væntanlega með því að við myndum skipta um gjaldmiðil. Það virðist vera eina raunhæfa leiðin til þess að ná bæði stöðugleika og trúverðugleika, sem er það sem þarf til þess að fólk sé reiðubúið að binda fé sitt til langs tíma án verðtryggingar.“


back to top