Umhverfisvænar og rykfríar pappaflögur í undirburð

Hjónin Ólafur Sigurjónsson og Lilja Guðbjartsdóttir stofnuðu nýverið fyrirtækið Flögur ehf. þar sem þau framleiða pappaflögur sem koma í stað hins hefðbundna spóns. Pappaflögurnar eru hugsaðar sem undirburður fyrir hesta og hænur á kjúklingabúum og hafa marga kosti umfram spón.

„Með þessari framleiðslu erum við að stunda endurvinnslu og það er jákvæðasti þátturinn í þessu ferli. En það sem pappaflögurnar hafa til dæmis fram yfir spóninn er að þetta er fjórum sinnum rakadrægara efni, það eru engin aukaefni í því, það er rykfrítt, það klessist ekki saman, það eyðir lykt og er ódýrara í þokkabót,“ útskýrir Ólafur.


40% ódýrara efni
Fyrirtækið fór formlega af stað í byrjun desember og er staðsett í Hafnarfirði. Þau hjónin höfðu aldrei komið nálægt neinu slíku fyrr en þar sem Ólafur var eitt sinn virkur hestamaður og hafði starfað í BYKO við sölu á trjákurli og öðru var þessi hugmynd ekki ný af nálinni hjá honum.
„Þetta var búið að vera hugmynd lengi hjá mér en síðan fór ég á námskeið hjá Iðntæknistofnun um síðustu áramót þar sem þetta fór formlega af stað og síðan þróaðist þetta áfram. Kjúklingabúin eru byrjuð að sýna þessu áhuga, enda er þetta um 40% ódýrara efni en hefðbundinn spónn svo þetta lofar góðu,“ segir Ólafur sem flytur jafnframt inn spónarköggla.


back to top