Nýtt Íslandsmet í mjólkurafköstum

Nú stendur yfir vinnsla á ársuppgjöri skýrsluhalds nautgriparæktarinnar og þegar er ljóst að Íslandsmet í mjólkurafköstum einstakra kúa á einu almanaksári er fallið. Nýi Íslandsmethafinn er Blúnda 468 á Helluvaði á Rangárvöllum, dóttir Káts 99012, móðurfaðir Fantur 96789 sonur Flakkara 88015. Blúnda náði þeim einstaka árangri á síðasta ári að mjólka 13.327 kg mjólkur en fyrra Íslandsmet átti Gláma 913 í Stóru-Hildisey 2 12.762 kg og var það frá árinu 2004.
Það sem gerir árangur Blúndu 468 einstæðan er að hún bar ekki fyrr en mánuður var liðinn af árinu eða þann 1. febrúar s.l. Hún náði síðan hæst 57 kg nyt og hélt yfir 50 kg/dag í yfir 3 mánuði. Að sögn Ara Árnasonar, bónda á Helluvaði, er kýrin einstaklega mjólkurlagin og hefur gengið erfiðlega að gelda hana upp en hún á að bera í nú í byrjun febrúar. Hún var enn í 19 kg í desember og í 6 kg í gær. Afurðir Blúndu eru því rétt tæp 40 kg/dag að teknu tilliti til lengdar geldstöðu.
Blúnda 468 er fædd 28. október 2001 og bar sínum fyrsta kálfi 28. september 2003 og aftur þann 13. september 2004. Hún bar ekki á árinu 2005 og er því að ljúka sínu þriðja mjólkurskeiði nú en hún bar eins og áður sagði þann 1. febrúar 2006. Þá átti hún kvígu undan Brimli 97016 sem hljóta að vera gerðar allnokkrar væntingar til með hliðsjón af ætterni.
Á fyrsta mjólkurskeiði mjólkaði Blúnda 6.048 kg og á öðru mjsk. 7.191 kg en nú á því þriðja slær hún öll met.


back to top