Nýtt hesthús risið á Hólum

Við Hólaskóla, háskólann á Hólum, er nú risið eitt glæsilegasta hesthús landsins og verður það væntanlega tekið í notkun á veglegri opnunarhátíð hinn 23. mars næstkomandi. Það er félagið Hesthólar ehf. sem byggir húsið og mun síðan reka það en leigir skólanum til afnota. Að sögn stjórnarformanns félagsins er gert ráð fyrir að byggingarkostnaður verði 250 til 300 milljónir króna. Verið er að leggja lokahönd á verkið þessa dagana.
Byggingarframkvæmdir hófust um mitt síðasta sumar. Hesthúsið er um þrjú þúsund og tvö hundruð fermetrar að grunnfleti og getur hýst um tvö hundruð hesta, þar af fimmtíu stóðhesta. Auk þessa verður að finna nemendaaðstöðu, bað- og snyrtiaðstöðu fyrir íbúa hússins og 800 fermetra reiðhöll með kennsluaðstöðu í húsinu.
Hesthólar ehf. sem byggir húsið er að mestu í eigu Kaupfélags Skagfirðinga og Þráar ehf. en eigendur Þráar ehf. eru Kaupfélag Skagfirðinga og Friðrik Jónsson ehf. byggingaverktakafyrirtæki á Sauðárkróki.


back to top