Eru erlend lán fýsileg fyrir bændur?

Útibú Kaupþings á Selfossi og á Hellu stóðu í gær (22.feb.) fyrir fræðslufundi um erlendar lántökur í Árhúsum á Hellu. Fundurinn var vel sóttur en um 50-60 bændur víða af Suðurlandi mættu og greinilegur áhugi á málefninu meðal þeirra. Á fundinum urðu ágætar umræður um framsöguerindi.
Frummælendur voru þeir Þórhallur Ásbjörnsson, sérfræðingur í greiningadeild Kaupþings og Helgi Bragason, útlánastjóri Kaupþings.

Þórhallur fjallaði um erlend lán undir heitinu „Eru erlend lán fýsileg fyrir bændur?“ og Helgi hélt erindi sem hann kallaði „Fjármögnunarleiðir“.

Þórhallur fór í erindi sínu yfir þróun gengisvísitölunnar og einstakra mynta á liðnum árum og þá þætti sem áhrif hafa á gengi krónunnar gagnvart þeim, s.s. útgáfu krónubréfa, þennsluna vegna stórra framkvæmda á Austurlandi o.fl.

Helgi fór í sínu erindi yfir þróun vaxtakjara frá því að Lánasjóður landbúnaðarins var seldur og helstu ástæður þess að vextir bankanna hafa hækkað hratt á liðnum mánuðum. Jafnframt fór hann yfir þær fjármögnunarleiðir sem bankinn býður, bæði innlend lán sem erlend.

Í máli framsögumanna kom fram að vaxtamunurinn á þessari stundu milli innlendra og erlendra lána í lágvaxtamyntum væri allnokkur en ekki mætti gleyma því að LIBOR vextirnir sem mynda grunnvextina í erlendum lánum væru breytilegir. Gengisvísitlan nú er fremur lág (119,29 í gær) sem þýðir að krónan er fremur sterk. Stórir gjalddagar á krónubréfum eru í ágúst og september fyrir alls um 200 milljarða. Ef þróunin næstu mánuði verður á þá leið að vaxtamunur milli Íslands og annarra mynta minnki getur verið að útgefendur krónubréfanna taki peningana sína aftur út úr íslenska hagkerfinu og við það mun krónan væntanlega falla nokkuð. Hvort það yrði tímabundið ástand eða ekki veit enginn.

Samandregið svar frummælenda við spurningunni sem var yfirskrift fundarins „Eru erlend lán fýsileg fyrir bændur?“ var á þá leið að bíða um stund með erlendar lántökur, nýta sér minnkandi verðbólgu/verðhjöðnun sem greiningardeildir bankanna spá að verði á næstu mánuðum, sjá hverju fram vindur með krónubréfin í haust og hvort gengisvísitalan hækki ekki þegar líður á árið og endurmeta stöðuna í haust.

Fundarstjóri á fundinum var Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri BSSL

Sjá einnig:
Þróun gengisvísitölunnar


back to top