Nýtt fyrirtæki í mjólkurvinnslu

Héraðsfréttablaðið Skessuhorn sagði frá því í gær að miklar líkur séu á því að iðnaðarhús við Vallarás í Borgarnesi, sem byggt var sem kjötvinnsla fyrir fáum árum, öðlist nú nýtt hlutverk og fari undir mjólkurvinnslu. Skráður eigandi hússins er BK fasteignir sem er fyrirtæki stofnað af Sparisjóði Mýrasýslu og Kaupfélagi Borgfirðinga. Hlutafé hefur nú verið afskráð og eru BK fasteignir komnar að greiðslustöðvun samkvæmt heimildum Skessuhorns. Eru líkur til að Byggðastofnun, stærsti veðhafinn í húsinu, muni leysa það til sín. Engu að síður er nú búið að skrifa undir leigusamning á húsinu, með vitneskju og samþykki Byggðastofnunar, milli BK fasteigna og nýs fyrirtækis sem heitir Vesturmjólk ehf. Vesturmjólk hyggst framleiða og selja á mjólkurafurðir og vörur unnar úr mjólk og öðrum landbúnaðarafurðum.

Stofnendur Vesturmjólkur ehf.  eru Axel Oddsson á Kverngrjóti, Melrakki ehf. og Bjarni Bærings Bjarnason á Brúarreykjum.
Að Melrakka ehf standa m.a. Norðurárdalur ehf. en einn forsvarsmanna þess félags er Jóhannes Kristinsson, sem kenndur hefur verið við Fons ehf. Jóhannes er einnig framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Melrakka ehf. Norðurárdalur ehf. er skráð til heimilis í Þverholtum á Mýrum þar sem rekið er eitt stærsta kúabú landsins.


 


back to top