Nýjung á lambakjot.is

Á vefsíðu sauðfjárbænda saudfe.is er kynnt nýtt snjallsímaforrit sem vísar á tilboð og uppskriftir. Markmiðið er að íslenskir neytendur geti fengið ábendingar um tilboðsverð á lambakjöti og skemmtilegar hugmyndir sem henta fyrir kjötið.  Síðan lambakjot.is hefur verið endurhönnuð í tengslum við verkefnið, leitarmöguleikar auknir og ýmsar nýjungar meira áberandi.

Fyrst um sinn verður er þessi snjalla lausn í samstarfi við verslanir Krónunnar en gert er ráð fyrir að fleiri verslanir muni bætast í hópinn áður en langt um líður.

Hægt er að sækja forritið fyrir Android-síma á Goggle Play vefnum og á App store vefnum fyrir eigendur IPhone síma. Fyrir þá sem ekki nota snjallsíma er einnig hægt að skrá sig á vefnum lambakjot.is og fá þar sömu tilboð og uppskriftir og í snjallsímaforritinu. Notandinn fær þá SMS eða prentar út tilboðsmiða með strikamerki sem hann tekur með sér í verslun. Þeir sem sækja appið mega eiga von á því að fá ábendingar um tilboð í Krónunni í viku hverri.

Íslenskt lambakjöt ratar oft á grillið yfir sumartímann en með nýja forritinu geta lambelskir sælkerar tileinkað sér ýmsar nýjar og spennandi uppskriftir og aðferðir við matreiðsluna. Á vefnum lambakjot.is eru nú fyrirliggjandi mörg hundruð uppskriftir af ljúffengum réttum sem ættu að geta aukið fjölbreytnina í eldhúsum landsmanna.


back to top