Niðurstöður ytri úttektar á kjötmati sláturhúsanna

Matvælastofnun hefur birt niðurstöður ytri úttektar á kjötmati lambaskrokka í sauðfjársláturhúsum landsins á heimasíðu sinni. Matið fór fram í haust þar sem komið höfðu fram efasemdir um að kjötmat hér á landi samkvæmt EUROP-kerfinu væri sambærilegt við túlkun á matsreglunum í nágrannalöndunum. Einkum lutu þær efasemdir að því að kröfur sem gerðar eru til bestu holdfyllingarflokkanna, U og E, væru orðnar of slakar. Einnig hafa verið uppi áhyggjur af meintu mismunandi kjötmati í sláturhúsunum, einkum holdfyllingarmati.

Heildarniðurstöðurnar sýna að EUROP-matið á Íslandi er ágætlega sambærilegt við það sem gerist í nágrannalöndunum. Þó þarf yfirleitt að herða hér O/R mörkin nokkuð, við teygjum R-flokkinn heldur langt niður. Einnig þarf að skilgreina E-flokkinn betur og herða heldur kröfur fyrir hann.


Helstu niðurstöður holdfyllingarmats í einstökum sláturhúsum


Munur á meðalgildi húsmats frá viðmiðunarmati ásamt athugasemdum.


Norðlenska Höfn: Mismunur á meðalgildi +0,4. Herða þarf nokkuð O/R og R/U mörkin, þ.e. heldur mikið er nú flokkað í hærri flokkana.
Sláturfélag Vopnfirðinga: Mismunur á meðalgildi +0,1. Eðlilegt mat. Frávik minniháttar.
Fjallalamb Kópaskeri: Mismunur á meðalgildi +1,5. O/R mörkin góð. Umtalsverð hliðrun frá R í U í E.
Norðlenska Húsavík: Mismunur á meðalgildi  -0,5. O/R mörkin of ströng, þ.e. nokkuð meira hefði mátt fara í R. Annars eðlilegt, þó aðeins of strangt á R/U og U/E mörkum.
KS Sauðárkróki: Mismunur á meðalgildi +0,65. O/R mörkin of slök, þ.e. heldur meira hefði mátt fara í O. Annars eðlilegt þótt ögn megi herða á R/U og U/E mörkunum.
SAH Blönduósi: Mismunur á meðalgildi -0,1. Eðlilegt mat, þó aðeins of strangt á R/U mörkum.
SKVH Hvammstanga: Mismunur á meðalgildi -0,15.  Eðlilegt mat, örlítið strangt á R/U mörkum.
SS Selfossi: Mismunur á meðalgildi +0,24.  Eðlilegt mat, þó aðeins of slakt á O/R og U/E mörkum.
Lærdómur og viðbrögð


Úttektin staðfesti að við erum á réttu róli í kjötmatinu og að matið enduspeglar vissulega mikla framþróun sem hér hefur orðið í sauðfjárræktinni síðan EUROP-matið var tekið upp 1998. Frávik í sláturhúsunum eru yfirleitt ekki stórfelld og ekki endilega í þá átt sem skrafað hefur verið um. Niðurstöður úttektarinnar sýna þó fram á að við getum bætt okkur á ýmsan hátt, svo sem í fræðslu og þjálfun matsmanna, í samræmingu yfirmatsmanna og í framkvæmd úttekta á kjötmati í sláturhúsunum. Að því verður unnið af hálfu Matvælastofnunar. Tekið verður mið af þeim vísbendingum sem fram komu um það sem betur má fara í kjötmatinu þannig að hægt verði að leggja skýrar línur fyrir næstu sláturtíð.


Sjá nánar:
Ytri úttekt á lambakjötsmati, á vef MAST


back to top