Námskeiðið orkubóndinn í Landbúnaðarháskólanum

Námskeiðið Orkubóndinn verður haldið í Ásgarði hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri 13. og 14. apríl næstkomandi en á námskeiðinu getur áhugafólk um virkjun orku kynnt sér smávirkjanir af ýmsu tagi og fengið ráð um hvernig hægt er að beisla orkuna heima fyrir. Orkubóndinn hefur verið haldinn á sjö stöðum í vetur og hafa 650 þátttakendur sótt námskeiðið. Lögð er áhersla á að gera efnið skemmtilegt og aðgengilegt öllum og er námskeiðsgjaldið einungis 3000 krónur.

Námskeiðið á Hvanneyri er haldið í samstarfi við Endurmenntun LbhÍ en að Orkubóndanum standa Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Orkustofnun, Iðnaðarráðuneytið, Mannvit, Verkís, Ísor og heimamenn víða um land. Í framhaldi af Orkubóndanum eiga þátttakendur kost á að fá aðstoð við að hrinda virkjunarhugmyndum í framkvæmd og nú þegar hafa fjölmargir hafið undirbúning að virkjunum eða gerð eigin eldsneytis.


Námskeiðið er ætlað einstaklingum, landeigendum, bændum, fulltrúum fyrirtækja, nemendum og öllum sem hafa áhuga á endurnýjanlegri orku. Herferð Orkubóndans um landið lýkur 19. maí þegar haldin verður ráðstefna í Reykjavík þar sem þátttakendur af námskeiðunum koma saman og mun Iðnaðarráðherra veita hvatningarverðlaunin Orkubóndinn.


Staður og stund:
13. apríl: kl. 10:30 – 16:30 í Ársal, Ásgarði hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri
14: apríl: kl. 10:00 er sameinast í bíla og farið í heimsókn til Bergþórs Kristleifssonar á Húsafelli, en hann hefur nýlega byggt allstóra virkjun í sínu landi. Eftir heimsóknina kl. 13:00 – 16:30 verður kennt í Ársal, Ásgarði.


Skráning á námskeiðið er á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, www.nmi.is.


Nánari upplýsingar veita:
Brynja Sigurðardóttir verkefnisstjóri, brynjasig@nmi.is  s. 5229000 / 691 2404.


back to top