Samtök lánþega í landbúnaði stofnuð

Á morgun, fimmtudaginn 8. apríl verða samtök lánþega í landbúnaði stofnuð á Hótel Hvolsvelli. Markmið samtakanna er að berjast fyrir réttlátum skuldbreytingum hjá lántakendum, þannig að lántakendur geti eftirleiðis staðið í skilum. Einnig að berjast fyrir því að fjölskyldur geti áfram stundað búskap.
„Þetta eru bændur úr Fljótshlíðinni og úr Landeyjunum sem standa á bakvið stofnun félagsins sem er hugsað á landsvísu. Guðmundur Andri Skúlason hjá Samtökum lánþega hefur aðstoðað okkur í undirbúningsvinnunni. Ástæðan fyrir því að við förum út í að stofna þessi samtök er að okkur finnst hafa hægt gengið, við höfum farið á fund ráðherra og alþingismanna, en lítið komið út úr því svo þetta er ein leið til að þrýsta á að eitthvað fari að gerast. Við vonum að fjöldinn hafi eitthvað að segja,“ segir Sigrún Þórarinsdóttir í Bollakoti. Fundurinn hefst klukkan 20:30. Allir sem hafa áhuga eru hvattir til að hafa samband við Guðna í síma 898-6124 eða Sigrúnu í síma 894-8445.

Þess má geta að í kjölfar Búnaðarþings er nú farin af stað vinna við lausn nokkurra fordæmisgefandi mála með lánastofnunum. Fyrir þeirri vinnu fer Helgi Jóhannesson hjá LEX og Jóhanna Lind Elíasdóttir, fjármálaráðgjafi Bændasamtakanna og nýráðinn lögmaður samtakanna, Elías Blöndal Guðjónsson.


back to top