Mókolla 230 á Kirkjulæk í 100 þús. kg hópinn

Mókolla 230 á Kirkjulæk í Fljótshlíð bættist í sumar í hóp þeirra örfáu íslensku kúa sem náð hafa 100.000 kg æviafurðum eða meira. Mókolla var í júlílok komin í 101.236 kg mjólkur. Mókolla er fædd 7. apríl 1996 undan Snarfara 93018 og Freyju 169 og er því orðin 15 vetra. Hún er enn í fullu fjöri og var í 16,4 kg í júlí s.l. en bar síðast 12. júlí 2010. Ef allt gengur upp og heilsufar Mókollu verður gott í vetur gæti hún náð eða hoggið nærri Íslandsmeti Hrafnhettu 153 í Hólmum í A-Landeyjum en það er 111.194 kg.
Faðir Mókollu Snarfari 93018 var sonur Sneglu 231 í Hjálmholti sem náði 100.736 kg æviafurðum en hún varð 17 vetra. Mókolla á þannig ekki langt að sækja langlífið og endinguna.
Mókolla bar fyrsta kálfi 24. október 1998 og hefur því mjólkað í 12,8 ár 7.909 kg mjólkur að jafnaði á ári.


back to top