Lífsval stefnir á hátt í fjögurra milljón lítra framleiðslu

Eins og við sögðum frá fyrir skömmu stefnir fasteignafélagið Lífsval að því að koma á fót stærsta kúabúi landsins á jörðinni Flatey á Mýrum en þar með verður félagið með framleiðslugetu upp á hátt á fjórðu milljón mjólkurlítra á ári. Fasteignafélagið hefur undanfarið rekið tvö kúabú, eitt á Skriðufelli við Jökulsárhlíð og annað á Ytrafelli í Eyjafirði. Samkvæmt heimildum fréttastofu útvarps hyggst félagið halda mjólkurframleiðslu þar áfram, en samanlögð framleiðslugeta búanna tveggja er um sex til sjö hundruð þúsund mjólkurlítrar á ári. Því verður hið nýja kúabú hrein viðbót við framleiðslugetu félagsins. Nýverið festi félagið kaup á kúabúinu Sumarliðabæ í Ásahreppi og búist er við að framleiðsla þar flytjist að Flatey. Heimildir herma að stefnt sé að því að kúabúið á Flatey á Mýrum muni hafa yfir að ráða um fimm til sex hundruð mjólkurkúm og framleiðslugetan verði hátt á þriðju milljón mjólkurlítra á ári. Þá er stefnt að því að hefja mjólkurframleiðslu á jörðinni Flatey á Mýrum í haust, með tæplega tvö hundruð mjólkurkúm.
Jörðin var áður í eigu Graskögglaverksmiðjunnar og í fyrstu verður notast við húsnæði sem fyrir er á jörðinni en svo verður búið stækkað í áföngum. Stærsta kúabú landsins í dag er í Hrafnagili í Eyjafirði, en þar eru framleiddir um milljón lítrar árlega með um tvö hundruð mjólkurkúm.


back to top