Landsmót hestamanna verður á Vindheimamelum á næsta ári

Landsmót hestamanna verður haldið á Vindheimamelum næsta sumar. Þetta var endanlega ákveðið á landsþingi Landssambands hestamannafélaga (LH) sem haldið var á Akureyri um síðustu helgi. Nokkur hringlandaháttur hefur verið varðandi hvort landsmót yrði haldið á næsta ári en eins og kunnugt er var tekin ákvörðun um að fresta mótinu sem halda átti nú síðasta sumar vegna hestapestarinnar.

Á þinginu var jafnframt samþykkt ályktun þar sem skorað var á stjórn Rangárbakka ehf. að draga til baka afturköllun á umsókn um að Landsmót hestamanna verði haldið á Gaddstaðaflötum sumarið 2014. Sveinbjörn Sveinbjörnsson formaður starfsnefndar um landsmótsmál lagði tillöguna fram og var mikill stuðningur við hana. Í samtali við Bændablaðið sagði Sveinbjörn að í ljósi þeirrar stöðu sem væri komin upp, að fresta hefði þurft landsmóti í sumar og að halda ætti landsmót bæði árin 2011 og 2012, hefði honum þótt ótækt að ekki væri hægt að skoða alla möguleika á mótshaldi 2014. Það væri hans mat að það mót gæti haft mikla þýðingu fyrir framtíð landsmótahalds, án þess að hann tæki neina afstöðu til þess hvar mótið skyldi fara fram. Þrír aðrir staðir hafa sótt um Landsmót 2014, Akureyri, Melgerðismelar og Vindheimamelar.


Haraldur Þórarinsson var á þinginu endurkjörinn formaður LH. Frekari upplýsingar um þingið má sjá á síðu Landssamtaka hestamannafélaga, www.lhhestar.is


back to top