Fóðurblandan breytir efnainnihaldi í fóðurblöndum

Fóðurblandan hefur sent frá sér tilkynningu um breytingar á efnainnihaldi í fóðri. Breytingarnar eru gerðar með hliðsjón af niðurstöðum heyefnagreininga. Þannig verður járn tekið út úr fóðurblöndum fyrir jórturdýr og kopar aukinn og húðaður að hluta til að sleppa við áhrif járns í vömbinni. Jafnframt verður selen-innihald aukið og helmingur þess verður á auðleystu lífrænu formi. E-vítamín verður einnig aukið um 50%.
Nánari upplýsingar má sjá í meðfylgjandi fréttatilkynninu frá Fóðurblöndunni.

„Niðurstöður heysýna kalla á breytingu á fóðurblöndum Fóðurblöndunnar.


Á seinustu árum hefur þekking á efnainnihaldi heysýna verið að aukast. Með betri mælitækni og auknum rannsóknum hefur komið æ betur í ljós hvernig innihald snefilefna í heysýnum er háttað á Íslandi .
Rannsóknaraðilar vildu vita hvort skortur eða ofgnótt tengdist landshlutum eða gæti gefið skýringu á auknum kálfadauða og riðu í sauðfé. Miðað við þarfir búfjár er mest áberandi hve styrkur selens og kopars er almennt lágur og hve heyin eru járnrík.


Tekin voru heysýni til steinefnamælinga á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli.  Mikið magn af járni fannst í sýnunum og voru flest yfir eitrunarmörkum eða meira en 1000 mg/kg þe.  Járn í fóðri hefur meðal annars áhrif á upptöku kopars sem lítill er fyrir í heyjunum og getur valdið skorti á kopar og fleiri snefilefnum. Mikið járn veldur einnig auknu oxunarálagi í líkama dýranna sem veikir ónæmiskerfið.


Segja má að eldfjallaaska einkenni jarðvegsgerð á Íslandi og þar með innihald á snefilefnum sem skýrir líka að nokkru þann mun sem er á snefilefnainnihaldi erlendra sýna.  Þetta verður að hafa í huga þegar framleitt er kjarnfóður fyrir íslenska búfjármarkaðinn.


Íslensk fóðurgerð byggir á því að reynt er að mæta næringarþörfum dýranna miðað við heimaaflað fóður samanber hey, bygg eða aðrar heimaræktaðar tegundir, en það sem á vantar kemur í formi kjarnfóðurs. Þess vegna er brýnt að breyta samsetningunni á kjarnfóðrinu þannig að það, ásamt heimaöfluðu fóðri uppfylli þarfir búfénaðarins. Ef ekki er gætt að  samsetningu snefilefna í kjarnfóðri er líklegt að það verði skortur af þeim snefilefnum sem nauðsynleg eru búfénaðinum. Ef járninnihald er of hátt þá hindrar það upptöku á öðrum efnum, til dæmis kopar og þess vegna er nauðsynlegt að hafa í kjarnfóðrinu lítið eða ekkert magn af járni, en auka kopar í þannig formi að hann leysist ekki upp fyrr en í mjógirninu.
Hátt járninnihald hefur neikvæð áhrif á virkni annara snefilefna eins og selen, sem hefur síðan áhrif á ónæmiskerfið, sem leiðir til aukinnar sjúkdómatíðni.
Með auknu E-vitamíni í fóðri má vega upp á móti oxunarálagi járns.


Fóðurblandan hefur undanfarið verið að endurgera fóðurblöndur sínar til þess að vinna á móti þessu óæskilega háa magni af járni sem er í samræmi við niðurstöður heysýna.
Járnið hefur verið tekið út úr fóðurblöndum fyrir nautgripi og sauðfé, kopar hefur verið aukinn og húðaður að hluta til þess að hann sleppi við áhrif járns í vömbinni og leysist upp á réttum stað í mjógirninu.  Selen hefur verið aukið og forminu breytt þannig að helmingurinn er á auðleystu lífrænu formi.  Þá hefur E-vitamíninnihaldið verið aukið um 50%.


Fóðurblöndur með þessari nýju samsetningu verða komnar á markað í byrjun nóvember.


Frekari upplýsingar veitir Erlendur Jóhannsson fóðurfræðingur í síma síma 570-9807 eða á netfangið erlendur@fodur.is.“


back to top