Kornþresking hafin á Suðurlandi

Kornþresking hófst á Drangshlíðarbúinu 19. ágúst sl. Um var að ræða íslenska tveggja raða yrkið Kríu sem sáð var 17. apríl sl. Að sögn Ólafs Björnsonar sem stendur í kornræktinni í Drangshlíð ásamt Þórarni Ólafssyni lítur vel út með kornræktina í ár. Í Drangshlíð er rekið sérhæft jarðræktarbýli þar sem megináherslan er lögð á kornrækt . Alls er ræktað korn á um 160 hekturum í Drangshlíð og í Nýjabæ. Þeir félagar sáðu í vor auk Kríunnar íslenska sexraða yrkinu Skúmi og tveggja raða yrkinu Filippu.

Stefnt er að því að þreskja núna um 15 ha af Kríu en aðal þreskingartímabilið hefst eftir um tvær vikur. Ekki var búið að vigta uppskeruna þegar haft var samband við Ólaf en að hans sögn má ætla að uppskeran sé um 3 tonn af 85% þurru korni. Uppskeran öll þurrkuð í nýlegri þurrkstöð í Drangshlíð og er stefnt að því að selja uppskeruna beint til kvikfjárbænda.

Gera má ráð fyrir að þresking hefjist almennt undir mánaðarmótin víða um Suðurland.

Á meðfylgjandi mynd er Ólafur Björsson að stjórna Class Tucano þreskivél sem þeir félagar keyptu haustið 2008.





back to top