Skemmdarverk unnin í tilraunareit ORF Líftækni í Gunnarsholti

Skemmdarverk voru unnin í nótt eða í morgun í tilraunaræktun ORF Líftækni í Gunnarsholti. Allt bygg í reitnum hefur verið eyðilagt. Ekki er ljóst hverjir standa að skemmdarverkunum. Ljóst er að fyrirtækið mun ekki fá uppskeru úr tilraunareitnum í Gunnarsholti í haust eins og stefnt var að og skemmdarverkin munu tefja áframhaldandi þróunarstarf fyrirtækisins á Íslandi.

Í tilkynningu frá ORF Líftækni segir að ræktun fyrirtækisins á erfðabreyttu byggi í Gunnarsholti sé liður í mikilvægri rannsóknar- og þróunarstarfsemi fyrirtækisins sem miði að því að framleiða verðmætar afurðir fyrir læknisfræðilegar rannsóknir, snyrtivöruiðnaðinn og lyfjaþróun.


Forsvarsmenn fyrirtækisins lýsa miklum vonbrigðum með að hér finnist einstaklingar sem eru tilbúnir til að grípa til skemmdarverka að fyrirmynd erlendra öfgahópa til að vinna gegn mikilvægri nýsköpun sem fyrirtækið vinnur að á Íslandi við erfiðar aðstæður.


Tilraunaræktun á erfðabreyttu byggi utandyra hefur staðið yfir í Gunnarsholti með hléum frá því árið 2003. Núverandi ræktun byggir á leyfi sem Umhverfisstofnun veitti í vor á grunni jákvæðra umsagna Ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur og Náttúrufræðistofnunar.


Málið hefur verið kært til lögreglu sem rannsakar nú málið.


back to top