Hvað kostar að fá verktaka til að rúlla?

Í lauslegri könnun sem BSSL gerði meðal heyvinnuverktaka á Suðurlandi í síðustu viku mátti greina nokkurn breytileika í gjaldtöku verktaka þó hann sé alla jafna ekki mikill. Í flestum tilvikum er innifalið í verðinu netið sem fer utan um rúlluna en verkkaupinn útvegar plastið. Eðlilega eru verðin breytileg eftir stærð rúllunnar en hafa þarf í huga að talsvert mikið heymagn er í hverjum 10 cm sem bætast við þvermál rúllunnar. Þannig er skv. handbókartölum 2,1 rúmmetrar í rúllu sem er 1,5 m í þvermál en 1,4 rúmmetrar í rúllu sem er 1,2 í þvermál. Þjöppunin er líka mikið atriði og þetta tvennt veldur því að rúlla er alls ekki það sama og rúlla eins og allir vita. Að nota fjölda rúlla sem verðgrunn í slíkum viðskiptum er því ekki allskostar réttlátt þó það sé án efa þægilegasta leiðin.

Algengast er að verð á rúllu með neti sé á bilinu 800 til 1.100 krónur á Suðurlandi en talað var við 6 verktaka í Árnes- og Rangárvallasýslu. Lægstu verðin eru þá fyrir minnstu rúllurnar (1,2 m. þvermál) en sumir verktakar sem geta ráðið stærð rúllana hafa þrepahækkun í verði á hverja 10 cm sem bætast við þvermálið. Einnig taka sumir verktakar meira fyrir að saxa í rúllurnar, annaðhvort prósentuálag ofan á grunnverðið eða fasta krónutölu á hvern hníf sem notaður er. Slíkt álag getur vart talist annað en eðlilegt þar sem söxunin er orkufrekari og jafnframt minnka afköstin nokkuð. Jafnframt eru nokkrir verktakar sem innheimta sérstakt komugjald eða taka fast verð á klst. í milliferðir, a.m.k. ef farið er lengra til. Oftar en ekki falla komugjöldin niður ef ákveðnum rúllufjölda er náð í sömu ferðinni, 100–150 rúllur voru nefndar í þessu sambandi.

Samkvæmt upplýsingum sem aflað var annars staðar af landinu eru þessi verð svipuð og þar eru í gangi. Gera má ráð fyrir að það þurfi um 10 til 12 metra af neti utan um hverja rúllu sem þýðir 3.600 metra netrúlla dugar á um 300-360 rúllur. Algengt verð á slíkri netrúllu í sumar var 45.000 kr/u vsk. sem gerir 125-150 kr á hverja heyrúllu. Verktakinn sjálfur er því að fá fyrir sínar vélar og vinnu á bilinu 650 kr til 975 kr.


back to top