Kjarnfóður hefur hækkað gríðarlega á undanförnum árum

Um síðustu mánaðamót hækkuðu bæði Fóðurblandan og Lífland verð á kjarnfóðri. Búnaðarsamband Suðurlands hefur undanfarin ár fylgst með og tekið saman verðþróun á kjarnfóðri og birt á heimasíðunni. Þar er miðað við kjarnfóður með 16% próteininnihaldi þar sem aðalpróteingjafinn er fiskimjöl. Fóðurblandan hækkaði verð á þessari blöndu, Kúakögglum 16, um 7% og kostar tonnið nú kr. 91.109 með magn- og staðgreiðsluafslætti. Lífland hækkaði sambærilega blöndu (Góðnyt K-16, 16% prótein) um 8% og kostar tonnið nú kr. 92.772 með magn- og staðgreiðsluafslætti.
Fóðurblandan hefur birt nýjan verðlista á heimasíðu sinni en Lífland hefur ekki gert hið sama þrátt fyrir að bjóða upp á pöntun á heimasíðu sinni. Það hlýtur að teljast gagnrýnivert að bjóða upp á pöntun á vöru án þess að birta rétt verð hennar.
Ef horft til verðþróunar á þessum blöndum undanfarin áratug og hún borin saman við verðþróun á mjólk hefur kjarnfóður hækkað umtalsvert mikið meira en mjólk. Búnaðarsambandið hefur fylgst með verðþróuninni frá því í desember 2002 og framreiknað verðið miðað við vísitölu neysluverð. Ef verð á kjarnfóðri (16% blöndur frá Fóðurblöndunni og Líflandi) og mjólk er sett á 100 í des. 2002 og framreiknað miðað við vísitölu kemur í ljós að kjarnfóður hefur hækkað 72% umfram vísitölu meðan mjólk hefur hækkað 8% umfram vísitölu.
Ef litið er nær í tíma má taka sem dæmi að í janúar 2009 þurfti 898 lítra mjólkur til að greiða tonn af kjarnfóðri en í dag þarf 1.143 lítra til að borga tonnið. Á tæpum fjórum árum hefur því það magn mjólkur sem leggja þarf inn til að kaupa eitt tonn af kjarnfóðri því aukist um 245 lítra eða 27%.

Sjá nánar:
Verðþróun mjólkur og kjarnfóðurs


back to top