Jarðskjálfti á Suðurlandi

Eins og alþjóð veit reið Suðurlandsskjálfti yfir í gær. Upptök skjálftans voru undir Ingólfsfjalli mitt á milli Selfoss og Hveragerðis. Mikið eignatjón hefur orðið í skjálftanum a.m.k. hvað næst upptökunum en sem betur fer engin teljandi slys á fólki svo vitað sé.

Skrifstofa Búnaðarsambandsins á Selfossi sem er á 2. hæð verslunarmiðstöðvarinnar Kjarnans er aðeins í um 5 km fjarlægð frá upptökum skálftans og gekk því mikið á. Svo til allt hrundi sem hrunið gat og forðuðu starfsmenn sér út hið fyrsta eftir að skjálftanum lauk. Bækur og bókaskápar duttu og hjálpa þurfti tveimur starfsmönnum út af skrifstofum sínum þar sem bókaskápar höfðu dottið fyrir útgönguleiðir.

Skrifstofa Kristjáns Bj. Jónssonar fór einna verst út úr skjálftanum og mikil mildi að hann var þar ekki staddur þegar skjálftinn reið yfir.

Ljóst er að starfsmenn gera lítið annað í dag en að taka til á skrifstofum sínum.

 


back to top