Jarðræktarstyrkir og landgreiðslur

Búið er að opna fyrir umsóknir um jarðræktarstyrki og landgreiðslur á Bændatorginu og er umsóknafrestur til 20. október n.k.  Skilyrði fyrir styrkveitingu eru fullnægjandi skil á jarðræktarskýrslu í Jörð (jord.is).  Búið er að einfalda umsóknarferlið nokkuð frá því í fyrra og helsta breytingin er að bóndi skilar einni umsókn inn í Bændatorgið, sem er með öllum upplýsingum sem hann skráði í  skýrsluna á jord.is.  Bændur á Suðurlandi fengu póst á dögunum frá Gunnari Ríkharðssyni, með ítarlegum upplýsingum um umsóknaferlið en helstu atriði úr bréfinu voru þessi:

  • Bóndinn byrjar að skrá allar nauðsynlegar upplýsingar um einstakar spildur í skýrsluhaldsforritinu JÖRÐ og útbýr þar til gerða skýrslu. Fer síðan yfir á sitt Bændatorg á netinu eins og í fyrra og útbýr umsóknina. Núna þarf þó bara að útbúa þar eina umsókn sem inniheldur bæði umsókn um ræktunarstyrki og landgreiðslur og sama umsóknin nær einnig yfir öll þau landnúmer sem viðkomandi bóndi nýtir spildur á.
  • Til að hægt sé að skila fullnægjandi jarðræktarskýrslu þarf að vera búið að að teikna viðkomandi spildur inn á loftmyndagrunn BÍ.
  • Búnaðarsamband Suðulands sér um að teikna og lagfæra túnkort fyrir bændur á sínu svæði.  Þetta á einnig við um þá sem hafa sínar spildur nú þegar teiknaðar í loftmyndagrunninn en hafa á þessu ári endurræktað hluta af áður teiknaðri spildu. Þann hluta þarf nú að afmarka sérstaklega í loftmyndagrunninum svo hægt sé að skrá á þann hluta nauðsynlegar upplýsingar í JÖRÐ og sækja í framhaldinu um ræktunarstyrk.
  • Þegar sótt er um landgreiðslur og spildan ekki ræktuð öll þarf ekki að teikna hana upp á nýtt, heldur aðeins að skrá í Jörð hversu margir ha voru slegir.
  • Við afmörkun á nýjum spildum eða spilduhlutum þá þurfum við stundum að fara á staðinn og taka GPS-hnit en stundum duga aðrar aðferðir. Best er því að hafa samband svo við getum skoðað í sameiningu hvað best er að gera í hverju tilviki fyrir sig og samnýtt ferðir ef þarf.

Búnaðarsambandið sér um fyrir hönd MAST að fara yfir þær umsóknir sem berast um jarðabótastyrki en Búnaðarstofa (MAST) sér um útgreiðslu styrkja.
Við yfirferð og úttekt á umsóknum eru notaðar bæði gervihnattamyndir og heimsóknir á bæi. Með skoðun á gervihnattamyndum má greinilega sjá við ákveðnar dagsetningar hvort stykki sem sáð var í eru farin að grænka og einnig hvort spildur hafi verið slegnar eða ekki.
Því er mjög mikilvægt að við skráningar í jarðræktarskýrsluhaldið í JÖRÐ sé vandað til verka og réttar dagsetningar skráðar bæði á sáningar og uppskeru.
Það sama á að sjálfsögðu við um skýrsluhald í jarðrækt eins og um skýrsluhald í búfjárrækt – notagildið ræðst af gæðum þeirra gagna sem unnið er með.

Rétt er að ítreka:
Ekki verður hægt að skila inn jarðræktarskýrsluhaldi né sækja um ræktunarstyrk eða landgreiðslur fyrir einstakar spildur nema þær hafi áður verið teiknaðar í loftmyndagrunninn.

Hægt er að hafa samband við Gunnar ef einhverjar spurningar vakna varðandi túnkortin eða skýrsluhaldið þá má senda honum póst á gunnar@bssl.is eða hringja á skrifstofuna í síma 480-1833 / 895-4365 / 480-1800

Gott að hafa samband sem fyrst vegna allra breytinga sem þarf að gera.


back to top