Húsfyllir á Ræktun 2009

Hin árlega reiðhallarsýning Hrossaræktarsamtaka Suðurlands var haldin föstudaginn 24.apríl s.l. en samtökin hafa staðið að þessari sýningu síðasta laugardag í apríl en þetta árið var sýningin færð fram á föstudags vegna Alþingiskosninganna.
Á sjötta hundrað áhorfanda mættu og var stemmingin frábær. Að venju byggist þessi sýning upp á ræktunarbússýningum, afkvæmasýningum og einstaklingum í röðum stóðhesta og hryssna. Þau ræktunarbú sem kynntu ræktun sína voru Auðsholtshjáleiga, Dalland, Kjarr, Ketilsstaðir, Þjórsárbakki, Ragnar Ágústsson, Ingólfshvoll, Álfhólar, Stuðlar og Kaldbakur. Þessir hópar kynntu mjög vel hvað er í gangi í hrossarækt og tamningum á Suðurlandi og fjöldi frábærra gripa komu þar fram.
 

Afkvæmahópar voru nokkrir, en nokkur afkvæmi Stála frá Kjarri komu fram, dætrahópur Kjarna frá Þjóðólfshaga, afkvæmi Vár frá Skjálg, Þernu frá Arnarhóli, Væntingar frá Voðmúlastöðum, þrír synir Ljónslappar voru í Ketilsstaðahópnum  og  allar hryssurnar sem fram komu í hópi frá Þjórsárbakka voru undan Eldingu frá Hóli. Af einstaklingum komu fram gullgóðir einstaklingar eins og Alfa frá Blesastöðum, Njáll frá Hvolsvelli, Rammi frá Búlandi, Hera frá Stakkhamri, Samber frá Ásbrú og Bylting frá Selfossi. Lokahnykkinn átti svo gæðingurinn Stáli frá Kjarri.
Gaman var hve margir mættu þrátt fyrir mikið rok og eiga hesteigendur heiður skilið að mæta þrátt fyrir það.
Gaman er að geta þess að ljósmyndarinn Dalli sem er með heimasíðunna www.dalli.is tók um 250 myndir á sýningunni og þar eru skemmtilegar myndir af bæði hrossum og fólki.


Fyrir hönd Hrossaræktarsamtaka Suðurlands þökkum við öllum sem að sýningunni komu kærlega fyrir og ljóst er að framtíð hrossaræktarinnar er björt.


Kær kveðja
Óðinn Örn Jóhannsson
Sýningarstjóri


back to top