Íslensk vara sækir á

Innflutningur mat- og drykkjarvöru hefur dregist saman um tæp 30% það sem af er þessu ári miðað við sama tíma árið 2008, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Greinilegt er því að innkaupakörfur landans eru öðruvísi samansettar nú en í fyrra þótt ekki hafi verið formlega kannað hvernig neyslumynstrið hefur breyst. Þórólfur Þórlindsson, forstjóri Lýðheilsustofu, vill ekki meina að Íslendingar hafi ástundað slíka ofneyslu á matvörum að við megum við 30% samdrætti án þess að finna fyrir því. Skýringin sé fyrst og fremst sú að við leitum nú mun meira á innanlandsmarkaðinn en áður.

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, segir sömu sögu, þar rími aukin innlend sala við minnkandi innflutning.  „Á þessum tíma í fyrra var til dæmis verið að flytja inn mikið af nautakjöti og kjúklingum en þar hafa orðið algjör umskipti og mjög lítið verið flutt inn á þessu ári,“ segir Guðmundur og nefnir einnig að kaupmynstur hafi breyst þegar kemur að kaffi. Mun meira sé nú keypt af kaffi sem er brennt og malað á Íslandi. Annað dæmi sé frosin rúnnstykki og brauð sem bakaríin hafi áður flutt inn, nú sé orðið mun ódýrara að baka þau heima. Að mati Guðmundar felst minnkandi innflutningur ekki í því að Íslendingar séu hættir að sjá ákveðnar matvörur. „Fólk hefur aðgang að sömu vörum og í fyrra, en þetta ástand gerir það að verkum að íslensk vara er miklu samkeppnishæfari í verði.“

Morgunblaðið 4. maí 2009


back to top