Haustfundur HS 2007

Fundargerð
Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands



Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn í Þingborg, kl 20:00 þann 1. nóvember 2007.


Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Skýrsla formanns, Hrafnkell Karlsson
3. Hugleiðingar um ræktunarstarfið, Guðlaugur Antonsson
Kaffihlé
4. Umræður og önnur mál


1. Fundarsetning
Ágætu félagsmenn
Við erum mætt hér einu sinni enn á haustfundinn okkar sem gegnum tíðina hefur verið fundur um starfið á liðnu sumri.  Áður var aðallega rætt um stóðhestahaldið og stefnuna í þeim málum en nú reynum við meira að fara almennt yfir árangur eða reynslu sumarsins á vettvangi kynbótasýninga.  Hér er einnig vettvangur til að ræða félagsstarfið svo og að leggja fram tillögur um málefni greinarinnar.  Guðlaugur Antonsson, landsráðunautur, er því sjálfsagður fastagestur á þessum fundi og býð ég hann velkominn.
Dómaramálin hafa verið heit í gegnum tíðina og svo er enn.  Margir telja að þar sem tvær dómnefndir störfuðu á sýningum sumarsins hafi komið berlegar en áður í ljós mismunur á dómum einstakra dómara. Dómarar munu alltaf verða fyrir gagnrýni og er að því leiti starf þeirra ekki öfundsvert.  Hins vegar verða þeir að vera gagnrýnir á sjálfa sig og vanda til verka því hlutlaus fagleg niðurstaða og samræmd vinnubrögð verður að vera þeirra leiðarljós. Ég minnist sérstaklega á þennan þátt í sýningarhaldinu því  til mín leitaði nokkur hópur manna á síðasta vori og héldu því fram að fagmennsku vantaði og misræmi í dómum væri áberandi. Ég er þeirrar skoðunar að tilgangslaust sé að nöldra um þetta í kaffistofunni heima heldur verðum við að taka umræðuna á vettvangi sem þessum.  Þetta og margt fleira munum við ræða við Gulla hér á eftir.
Að þessum orðum sögðum segi ég fund settan og geri tillögu um Kára Arnórsson sem fundarstjóra og Höllu Eygló fundaritara.


2. Skýrsla formanns, Hrafnkels Karlssonar
Félagsstarfið er nú að hefjast og verður að mestu í sömu skorðum og áður. Folaldasýningin verður nú á laugardag og byrjar kl. 14.  Miðdegissýning er líklegri til að höfða til yngstu kynslóðarinnar og hvet ég ykkur til að mæta með börn og unglinga því folaldasýning ætti að höfða frekar til þeirra en aðrar sýningar. Á sýningunni verður afreksknapi Suðurlands 2007 og heiðurshryssa Suðurlands 2007 heiðruð. Í mars verður ungfolasýningin og aðalfundur samtakanna og síðan ræktunarsýningin í lok apríl.
Við erum nú komin með nýjan fastan punkt í starfið sem eru skyldur okkar samkvæmt nýjum samningi við LbhÍ sem undirritaður var í sumar. Markmið með samningnum er að stuðla að aukinni fræðslu og menntun á sviði hrossaræktar. Einnig að stuðla að rannsóknum á sviði hrossaræktar og hestahalds. Er það gert í því augnamiði að auka skilning og áhuga á hrossarækt og stuðla að framförum í greininni með sérstaka áherslu á starfssvæði HS. Um er að ræða námskeið á formi sí- og endurmenntunar að okkar vali fyrir félagsmenn. Stuðningur við náms- og rannsóknarverkefni með sunnlenskri skírskotun, eins og við köllum það.  Við byrjum væntanlega með námskeið í febrúar sem haldið verður á tveimur stöðum á félagssvæðinu, sem við kynnum sérstaklega þegar nær dregur.
Skoðanakönnun sem við framkvæmdum á síðasta vetri skilaði niðurstöðum sem komu í flestum tilfellum ekki á óvart en jafnframt sýnir okkur að ýmsir vilja fara aðra leið í starfinu.  Niðurstöðuna þarf að nota sem vegvísi fyrir stjórn samtakanna enda var markmiðið að “fá félagsmenn til að móta störf og stefnu samtakanna” eins og við orðuðum það í kynningu.
Helsu niðurstöður könnunarinnar í stuttu máli eru:
• Stærsti hópur svarenda telur áhuga á hrossarækt vera helstu ástæðu félagsaðildar sinnar.
• Óháð kyni eru 13% þátttakenda óánægð með starfsemi HS, 42% eru í meðallagi ánægð eða óánægð og um 45% þátttakenda eru ánægð með starfsemi samtakanna. Ekki er marktækur munur á ánægju eftir búsetu. Í könnuninni fundust ástæður fyrir ríflega þriðjungi ánægju félaganna með HS. Þar skipta mestu máli hrossasýningar samtakanna og aðgangur að WorldFeng.
• Langflestir, eða 94% svarenda í könnuninni, telja það skipta miklu máli að rekin séu hagsmunasamtök. Ríflega 82% töldu ekki þörf á að breyta hrossasýningum samtakanna.
• Um 70% svarenda segjast myndu halda áfram að vera félagar í HS þó svo að um aðgang að WorldFeng væri ekki að ræða en um 30% myndu hinsvegar segja sig úr samtökunum.
• Margar hugmyndir komu fram að viðfangsefnum fyrir samtökin en flestir töldu að fræðslu- og útgáfustarf og hagsmunagæsla ættu að vera efst á baugi. Hvað varðar tillögur að úrbótum var oftast nefnt að starf samtakanna mætti vera sýnilegra og virkara og einnig að stóðhestahald eða betra aðgengi að stóðhestum myndi bæta starf samtakanna.
Það er mín skoðun að leggja beri ríkari áherslu á að ná betri tengslum við hinn almenna félagsmann og kemur þá til greina að efla heimasíðuna.  Að mínu mati er nauðsynlegt að ná til allra í gegnum tölvupóstinn þar sem hægt væri að minna félagsmenn á, eða vekja athygli á ýmsu sem er á döfinni.
Eftir sölu eigna, og nú seinast sölu á sæðistökuhúsinu í Gunnarsholti, sitja eftir nokkrir fjármunir.  Stjórnin hefur rætt um hvernig ætti að varðveita og ráðstafa þeim.  Við teljum mikla þörf á að horfa til framtíðar og marka stefnu um ráðstöfun eigna og tekna.  Því höfum við ákveðið að leggja fram tillögu fyrir næsta aðalfund um þetta efni.  Rætt hefur verið um að höfuðstóllinn haldi sér með verðbótum, þannig að eigi verði ráðstafað meira en vaxtatekjum og öðrum árlegum tekjum  félagsins.  Jafnframt að ekki verði vikið frá þessari stefnu nema með ákvörðun aðalfundar.  Ég tel að skynsamleg nýting þessara fjármuna geti skipt miklu um hvort okkur takist að halda styrk samtakanna eftir þær miklu breytingar sem orðið hafa á starfseminni.
Talsvert hefur verið rætt um innkomu svokallaðra auðmanna í íslenska hrossarækt.  Þetta hefur óneitanlega áhrif í greininni í framtíðinni. Við þekkjum þó vel að undanfarin ár og áratugi hafa sæmilega efnaðir menn komið inn í greinina sem markað hafa rækilega sín spor í ræktunarstarfið. Það sem nú hefur gerst á allra síðustu árum er annað og meira því auðmenn hafa keypt jarðir og ræktunargripi í miklu meira mæli en áður hefur gerst.  Ég tek þetta fyrir hér þar sem þetta kann að hafa áhrif á starfsumhverfi okkar og jafnvel á kynbótastarfið í framtíðinni.  Sumir sjá ógnir í þessari stöðu en aðrir tækifæri.  Tækifærin eru að hluta þegar komin í ljós, því að skapast hefur meiri eftirspurn eftir góðum ræktunarhrossum og hefur því verð hækkað á innanlandsmarkaði. Markaðsmál verða væntanlega tekin fastari tökum, á ég þá við sérstaklega erlendis, þar sem þessir menn eru harðir kaupsýslumenn, flestir með góða reynslu á því sviði. Ég geri mér einnig vonir um að meira fjármagn fáist í rannsóknar og þróunarstarf í framtíðinni ef rétt er á haldið.  Ókostirnir að sumra mati geta verið þeir að jarðir og besta aðstaðan verði í auknu mæli eign auðmanna og erfiðara verði fyrir “meðaljóninn” að eignast bújarðir.  En þetta á við allar búgreinar.  Ég sé hins vegar tækifæri í þessu og við verðum að átta okkur á að það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessu efni.  Það var ekki hægt fyrir bændur að bregða búi fyrir tiltölulega fáum árum nema eiga mesta lagi fyrir blokkaríbúð í þéttbýlinu en nú er öldin önnur.  Auðmenn hafa lagt mikið fjármagn í greinina og ef ég þekki þá rétt er þetta ekki aðeins gert til að hafa gaman af heldur til að ná árangri og þar liggja leiðir okkar saman.  Við þurfum að efla rannsóknir á öllum sviðum, en til þess þarf aukið fjármagn. Það þarf að draga betur fram hagsmunina sem felast í auknu rannsóknar- og þróunarstarfi og gera það “eftirsóknarvert” að styðja við rannsóknir eða einstök verkefni á því sviði. Mikilvægt er fyrir forystu hrossabænda að halda vel á málum og nýta þá kosti sem felast í stöðunni. Mín niðurstaða:  Bjóðum þessa menn velkomna og látum þá verða virka þáttakendur í starfinu með okkur. 


3. Hugleiðingar um ræktunarstarfið, Guðlaugur Antonsson
Guðlaugur þakkaði boðið á fundinn, það væri ómetanlegt að fá að tækifæri til að heyra í ræktendum.
Skýrsluhaldið
Frjósemismál voru mikið í umræðunni í fyrra og vegna þess voru upplýsingar á  64 stóðhestaskýrslum (urðu að uppfylla ákv. skilyrði) teknar saman og þá kom eftirfarandi í ljós: Hryssum sem var haldið voru 2.079 af þeim voru 1.739 fengnar. Fylhlutfall því um 83 % sem ekki telst slæmt. Þannig ef til vill er ófrjósemi ekki verulegt vandamál hérlendis.
Mikil þátttaka er í DNA- greiningum. Í ár fengu stóðhestar 5 vetra og eldri ekki dóm nema búið væri að taka DNA úr þeim. Folöld sem fæddust í ár fá ekki A-vottun nema sönnun á ætterni liggi fyrir. Eldri hrossin eru að tínast inn smátt og smátt. Eigendum 24 eldri dæmdra stóðhesta var sent bréf þar sem óskað var eftir því að þeir létu taka DNA úr hestunum og var brugðist vel við þeirri ósk.
Sýningar ársins
Þátttala var minni en í fyrra en náði samt 1.203 hrossum, endurdómar eru ekki með í þessari tölu miðað við 1.234 dóma í fyrra. Í fyrra var mikið um endurdóma enda keppikefli margra að koma hrossum á landsmót.
 Dreifing einkunna var betri hvað varðar hæfileikadóma en sköpulagsdóma. 
Dreifing aðaleinkunnar bendir til að dómarar noti skalann. Sýningarstaðir á Suðurlandi voru tveir að þessu sinni, Gaddstaðaflatir og Sörlastaðir. Hestamannafélagið Fákur hefur óskað eftir því að fá sýningu til sín, þannig sýningarstaðir á Suðurlandi gætu orðið þrír næsta vor; Gaddstaðaflatir, Sörlastaðir og Reykjavík.
Sýningargjöld hafa verið óbreytt í 2 ár. Fagráð mun leggja til einhverja hækkun á sýningargjöldum á næsta ári. Fullnaðardómur verður líkast til hækkaður úr 10.500 kr. í 12.000 kr. og byggingardómur úr 7.000 kr. í 8.000 kr. Búnaðarsamböndin hafa sýnt fram á að sýningargjöld þurfi að hækka um 14%. 
Undirbúningur að LM2008 er í fullum gangi. Dagskráin mun verða með hefðbundnum hætti að mestu leiti. Þó er stefnan að draga úr ballstemmingu á mótinu og fara frá útihátíðarforminu í hestahátíð. Dansleikjastarfsemi verði hætt og kráarstemming komi í staðinn. Jóna Fanney Friðriksdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri. Fagráð vill að stefnt sé að því að 180-200 kynbótahross mæti á mótið. Á LM2006 náðu 247 hross lágmörkum en 197 mættu á mótið. Lágmörkin verða því hækkuð eitthvað . Hugmynd fagráðs er að þau hækki um 5 stig í hverjum flokki:
Lágmörk fyrir hryssur:
7 vetra og eldri 8,20
6 vetra 8,15
5 vetra 8,05
4 vetra 7,90
Lágmörk fyrir stóðhesta:
 7 vetra og eldri 8,30
 6 vetra 8,25
 5 vetra 8,15
 4 vetra 8,00


Ef þessi lámörk hefðu verið á LM2006 hefðu 168 hross öðlast þátttökurétt á landsmóti en í ár hefðu þau orðið 151. Nokkrir stóðhestar hafa nú þegar ná lágmörkum til heiðursverðlauna og I verðlauna fyrir afkvæmi  og aðrir eru rétt við þau. Þannig allt stefnir í að það verði nokkrir hestar sem mæta til heiðurs- og I verðlauna fyrir afkvæmi.
 Árleg ráðstefna hrossaræktarinnar verður haldin laugardaginn 10. nóvember. Þar verða meðal annars tilnefningar til ræktunarverðlauna og erindi um það nýjasta í rannsóknum. Þeir ræktendur sem tilnefndir eru til ræktunarverðlauna eru: Auðsholtshjáleiga, Blesastaðir 1a, Fet, Ketilsstaðir, Kvistir, Litlaland, Lundir II, Skagaströnd (Sveinn Ingi Grímsson), Skarð, Strandarhjáleiga, Vestri-Leirárgarðar og Þúfa.
 Nokkur umræða hefur orðið um það fyrirkomulag að vera með tvær dómnefndir að störfum í einu, eins og gert var á seinni sýningunni á Sörlastöðum og á vorsýningunni á Gaddstaðaflötum. Fagráð telur að það fyrirkomulag sé skynsamlegt á stærri sýningum. Guðlaugur svaraði Hrafnkeli því til að hann teldi mun milli dómnefnda ekki vandamál. Hann benti meðal annars á að hérlendis hefðu allir dómarar FEIF- réttindi. Það væri í heildina 30 dómarar með þau réttindi og af þeim væru 15 staddir hérlendis. Afköst aukast mikið þar sem tvær dómnefndir eru að störfum. Varðandi meðaltöl einkunna væri ekki að sjá teljandi breytingu á milli ára. Fagráð hefur velt því fyrir sér hvort ræktendur sem koma oft með sama hrossið til dóms sama vorið eigi að hafa val um það hvort hrossið mæti aftur í byggingardóm.


Umræður
Kristinn Guðnason sagðist vera ánægður með það fyrirkomulag að hafa tvær dómnefndir að störfum í einu. Hann sagðist kannast við umræðuna um góða og slæma dómnefnd. Hann kom með þá hugmynd að önnur dómnefndin dæmdi byggingu og hin hæfileika. Sagðist gefa lítið fyrir það að sama dómnefnd þyrfti að dæma hvort tveggja. Taldi það líka hafa verið óskynsamlegt á sínum tíma að hafa hálseinkunn opna. Það eigi að dæma byggingu og hæfileika óháð hvort öðru. Máli sínu til stuðnings sagði hann að á landsmótum væri byggingardóm sleppt. Eina einkunn taldi hann að brýnt væri að lækka vægi á og það væri vilja og geðslagseinkunn. Hann sagði að sér fyndist allt í lagi þó svo Sleipnisbikarinn væri afhentur á laugardeginum og kynbótahross kæmu ekki neitt fram á sunnudeginum á landsmótinu. Að lokum spurði hann hve margir hefðu tekið þátt í könnun HS.
Hrafnkell sagði að 141 hefðu tekið þátt í könnuninni.
Kári Arnórsson spurði hvort einhver ræktunarbú yrðu á LM2008.
Guðlaugur Antonsson svaraði því til að það væri ekkert á vegum Bændasamtaka Íslands.
Páll Stefánsson sagðist hafa heyrt það á umræðum meðal knapa og ræktenda að misræmi væri í dómum. Þetta væru huglægir dómar, ef til vill væri ástæða til að vera með eftirlitsdómara sem fylgdist með störfum dómnefnda. Hann sagði að huga þyrfti að leiðbeiningagildi dóma og dómar ættu að vera opnir og pukur ætti að heyra sögunni til. Taldi hugmynd Kristins Guðnasonar um að önnur dómnefndin dæmdi byggingu og hin hæfileika tómt rugl.
Guðlaugur Antonsson sagði frá því að fyrir nokkrum árum hefði verið gerð tilraun með að láta dómara dæma hver fyrir sig og þar hefði komið fram mjög gott samræmi milli dómara. Hann sagðist efast um að nokkuð kæmi út úr því að vera með eftirlitsdómara annað en aukinn kostnaður. Varðandi dómstörf sagði hann að ekki væri hægt að rökræða alla dóma það væri einfaldlega ekki tími til þess. Hins vegar væru umræður milli dómara við dómstörf miklu opnari heldur en verið hefði og hann vildi ekki kannast við pukur við dómsstörf. Það væri leiðinlegt að ekki gæti verið sátt um dóma en sennilega væri hæpið að slíkt yrði nokkurn tímann
Stefán Pálsson spurði hvort ekki væri hægt að nýta sér myndavélar til að skera úr um vafaatriði.
Óðinn Örn Jóhannsson taldi að fyrir ræktendur væri skemmtilegar að allir heiðursverðlauna hestarnir á LM 2008 kæmu fram á saman degi. Varðandi ræktunarbúin á landsmótum vildi hann að vali á þeim væri breytt það væri leiðinlegt að horfa alltaf á sömu búin landsmót eftir landsmót.
Guðlaugur Antonsson sagði að auðvitað væri skemmtilegar að hafa alla heiðursverðlauna hestana sama dag og það væri rétt að skoða það.
Páll Imsland spurði hvað væri gert til að minnka huglæga dóma, tæknin til þess væri til.
Guðlaugur Antonsson sagði að sumt væri erfitt að mæla 9,0 fyrir tölt gætu hross fengið þó þau væru ólík.
Páll Imsland sagðist vita að þetta væri flókið en samt væri rétt að skoða þetta.
Kristinn Guðnason sagðist hafa áhyggjur af því að skeiðið væri á undanhaldi. Fimmgangskeppnin á Heimsmeistaramótinu í Hollandi hefði t.d. verið hræðilega léleg. Mætti helst líka henni við keppni í unglingaflokki hérlendis fyrir mörgum árum. Á HM hefðu margir hestar fengið skeiðeinkunn á tölti.
Guðlaugur Antonsson vildi nú ekki meina að skeiðið væri á undanhaldi þó meðaltal skeiðeinkunna væri aðeins lægri nú en í fyrra. Á LM2006 hefði komið fram hver vekringurinn á fætur öðrum. Var þetta ekki bara svona á HM2007 vegna þess að hestarnir voru ekki nógu góðir? Á Hvítasunnukappreiðum Fáks mætti sjá miklu sterkari hesta heldur en sést hefðu á HM. Hins vegar sé það því miður þannig að margir vilja frekar tréhest sem lyftir fótum heldur en mjúkan töltara sem hefur minni fótaburð.
Hrafnkell Karlsson sagði að sér fyndist ekki rétt af Guðlaugi að afgreiða gagnrýni á dómstörf með taugaveiklun.
 Það að vera með tvær dómnefndir að störfum í einu ætti að veita dómurum ákveðið aðhald. Guðlaugur hefði talað um að meðaltöleinkunna væru svipuð og undanfarin ár en það segði ekki allt. Hann sagðist ekki vilja sjá að þar sem tvær dómnefndir væru við störf að önnur dæmdi byggingu og hin hæfileika.
Tíðarfarið í haust hefur verið eitthvert það versta í langan tíma úrkoma og hvassviðri. Það er því mjög mikilvægt að huga vel að útigangi. Sunnlendingar verða að standa sig betur í því að koma upp skjólum fyrir hross en því er víða ábótavant.
Minnst hefur verið á fjármál HS. Það er alltaf þannig að ef einhversstaðar eru til peningar eru margir sem sækja í þá. Ég sé tækifæri í því fyrir HS að eiga sjóð sem gefur tekjur fyrir sína félagsmenn. Virkja fjármagnið til okkar starfssemi.
Nanna Jónsdóttir spurði hvort ekki væri hægt að vera með yfirlitssýningar á laugardögum.
Guðlaugur Antonsson sagði að það væri ekki á helgarnar bætandi. Það væru mót um hverjar helgar.
Hrafnkell Karlsson sagði frá því að það hefði komið upp sú hugmynd að yfirlitssýning á síðsumarsýningunni á Gaddstaðaflötum næsta haust yrði á sama tíma og landbúnaðarsýning Búnaðarsambands Suðurlands  sem haldin verður í tilefni af 100 ára afmæli þess í ágúst á næsta ári.. Hrossaræktendum verður boðið að taka þátt í sýningunni með öðrum hætti ef þeir hafa áhuga á.


4. Umræður og önnur mál
Enginn gaf sig fram. Kári þakkaði mönnum góða fundarsetu. Fundi slitið 22:20

 /Halla Eygló Sveinsdóttir 



 


back to top