Gripirnir mínir vinnufélagar

Í Morgunblaðinu í dag, 19. nóvember, er viðtal við bóndann á Stærri-Árskógum á miðopnu sem fer hér orðrétt eftir:

„Þetta er það versta sem bóndi getur lent í, fyrir utan mannskaða; að sjá gripina sína brenna inni,“ sagði Guðmundur Geir Jónsson, 35 ára bóndi á Stærra-Árskógi í Dalvíkurbyggð í samtali við Morgunblaðið í gær. Bróðurparturinn af bústofni hans, sem var rúmlega 200 nautgripir, drapst í stórbruna á laugardagskvöldið. Guðmundur bóndi segir enn of snemmt að velta því fyrir sér hvort hann geti byggt upp að nýju.

Stærri-Árskógur er kirkjustaður, rétt ofan þjóðvegarins við grunnskólann á Árskógsströnd. Guðmundur Geir býr þar ásamt sambýliskonu sinni og 10 mánaða gamalli dóttur. Hann hóf þarna búskap 1993; leigði fyrst búið, en keypti það 1999 og hefur byggt það upp smám saman.

Fjósið var mjög tæknivætt – þannig vill til að í gær var nákvæmlega eitt ár síðan mjólkurþjónninn, „róbótinn“ var tekinn í notkun – og eignatjón er gríðarlegt hvað það varðar, að ekki sé talað um allar skepnurnar sem drápust. Fjárhagstjón er jafnvel talið hátt í 200 milljónir króna. Íbúðarhúsið er skammt norðaustan við gripahúsin en var aldrei í hættu vegna þess að hann blés að norðan. Kirkjan er enn norðar.

Það var síðdegis á laugardag sem eldurinn kviknaði. Aðstæður voru mjög erfiðar; þegar slökkvilið Dalvíkur og Akureyrar komu á vettvang var eldurinn orðinn mikill og aftakaveður var á þessum slóðum, 10-15 metra skyggni, bálhvasst og mikið hríðarkóf. Talið er að vindhraðinn hafi verið 15-20 metrar á sekúndu. Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins miðað við aðstæður og var slökkvistarfi að mestu lokið á tveimur og hálfri klukkustund. Ekki var reynt að fara inn í húsin. Um 30 slökkviliðsmenn frá Dalvík og Akureyri unnu að slökkvistarfinu, auk félaga í björgunarsveitinni á Árskógsströnd.

Gekk nærri sér
Fólkið á Stærra-Árskógi gisti á Dalvík í fyrrinótt. Guðmundur Geir var nýkominn heim á ný þegar Morgunblaðið spjallaði við hann laust fyrir hádegi í gær.

Hann var heima síðdegis á laugardag þegar kviknaði í og reyndi án árangurs að bjarga skepnunum.

„Systir mín kom hér við um fjögurleytið og fór inn í fjós. Þá var allt í stakasta lagi og hún talaði einmitt um hve allt var rólegt og gott.“

Það var svo um klukkan hálffimm, kannski tuttugu mínútum fyrir fimm, sem sími hans hringdi: sjálfvirkur mjaltaþjónn lét þá vita að rafmagnsbilun hefði orðið í fjósinu. „Ég fór ekki alveg strax út, það liðu líklega fimm mínútur, en þegar ég var kominn rétt suður fyrir húsið sá ég að glæringar stóðu upp úr þakinu á gamla fjósinu.“ Þar virðist eldurinn hafa kviknað. Gamla fjósið er á milli þess nýja og hlöðunnar, sambyggt báðum.

Guðmundur bóndi reyndi hvað hann gat til þess að komast inn í fjósið og bjarga mjólkurkúnum. En veðurofsinn og þykkt reykjarkófið gerði það ómögulegt. Ingimar Eydal, aðstoðarslökkviliðsstjóri á Akureyri, sagði á laugardagskvöldið að bóndinn hefði gengið nærri sér við björgunartilraunina og Guðmundur sagðist sjálfur í gær enn með óbragð í munninum, vegna reyksins. „Það er hræðilegt að horfa á eftir aleigunni; maður veit af lifandi skepnum sem hugsanlega er hægt að bjarga og sjálfsagt missir maður hálfpartinn vitglóruna við þessar aðstæður og setur sig í hættu.“

„Vinir mínir“
Guðmundur sagði ótrúlegt hve reykurinn væri máttugur. „Ég reyndi að sparka upp hurð sunnan á húsinu og komast inn, en varð gjörsamlega þreklaus við það og skjögraði í burtu. Ég held að einhver hljóti að hafa togað í mig til þess að ég sneri við,“ sagði Guðmundurbóndi í gær. Var hann þó einn síns liðs. Eftir að honum varð ljóst að barátta með berum höndum dygði ekki til þess að komast inn hljóp Guðmundur að dráttarvél og hugðist aka í gegnum dyr fjóssins til þess að brjóta þær niður en það tókst ekki.

Hann sagðist reyndar aldrei hafa komið auga á hurðina, vegna stórhríðarinnar og mikils reyks sem lagði út.

„Ég reyndi allt sem ég gat en það dugði bara ekki til. Ég ætlaði varla að trúa því hve hratt eldurinn breiddist út. Það er eins og taugarnar hafi bilað þegar ég áttaði mig á því hve bjargarlaus ég var og þá fór ég hingað heim, og hef ekki farið niður eftir síðan.“

Alls sluppu 34 skepnur lifandi úr brunanum: „Elstu kvígurnar og geldkýrnar voru lausar og gátu farið út og viðrað sig að vild. Ég hef reynt að hlúa að gripunum og þeim líkaði þetta fyrirkomulag mjög vel.“ Þessir gripir forðuðu sér út í myrkrið þegar ósköpin gengu yfir á laugardaginn, og voru fluttar á bæinn Kálfsskinn í gærmorgun.

Framtíðin óljós
Guðmundur segist sinna starfi bóndans vegna þess að hann hafi gaman af því, ekki til þess að verða ríkur. „Maður er oft launalaus á laugardögum og sunnudögum þegar aðrir eiga frí en hugsar aldrei um það vegna þess að þetta er skemmtilegt.“

En tjónið nú er tilfinnanlegt: Allar mjólkurkýr Guðmundar drápust, svo og naut í uppvexti og yngstu kvígurnar. Hann var því eðlilega niðurdreginn í gær. „Þetta voru vinnufélagarnir; vinir mínir. Hver og einn gripur var sérstakur og þótt búið hafi verið orðið svona stórt skírði ég alla gripina með nöfnum.“

Guðmundur segist vitaskuld mjög þakklátur að enginn skyldi slasast við erfiðar aðstæður og vildi koma sérstökum þökkum á framfæri við liðsmenn slökkviliðanna á Dalvík og Akureyri, svo og félaga í björgunarsveitinni á Árskógsströnd. „Ég hef líka fengið margar hringingar og kveðjur frá mörgum. Þessu fólki er ég öllu mjög þakklátur.“

Þegar spurt er um framhaldið svarar Guðmundur Geir Jónsson, bóndi á Stærra-Árskógi: „Það er of snemmt að segja til um það hvort ég byggi þetta upp aftur. Ég er búinn að fjárfesta gríðarlega og skulda mikið; á að greiða afborganir í hverjum mánuði en nú verður engin innkoma, þannig að það gæti orðið mjög erfitt að fara af stað aftur. Ég veit því ekki núna hvað verður.“

Í HNOTSKURN

  • Öll gripahúsin á Stærra-Árskógi í Dalvíkurbyggð eru ónýt eftir eldsvoða á laugardagskvöldið. Hátt í 200 nautgripir drápust.
  • Aftakaveður var á laugardaginn og gerði slökkviliðsmönnum erfitt fyrir. „Það er ekki oft sem maður hefur þurft að berja klaka af gleraugunum sínum“ sagði Ingimar Eydal, aðstoðar slökkviliðsstjóri á Akrureyri.

    Morgunblaðið 19. nóvember 2007, bls. 20-21 / Skapti Hallgrímsson

  • back to top