Brunavarnarkerfi, flóttaleiðir og tryggingar

Víst er að bændur sem aðrir hafa hugsað með hryllingi til eldvoðans á Stærra-Árskógi sem varð á laugardaginn. Vonandi hefur hann þó orðið til þess að bændur hafi í kjölfarið hugsað um sínar eigin brunavarnir, flóttaleiðir í gripahúsum og tryggingar almennt.

Brunaeftirlitskerfi:
Allmörg kerfi hafa verið reynd í gegnum tíðina en fá verið nothæf vegna þess álags sem fjósloftið hefur á tæki og tól. Jafnvel í vel loftræstu fjósi eyðileggjast skynjarar með ótrúlegum hraða. Hefðbundnir reykskynjarar duga til dæmis alls ekki í útihúsum


A.m.k. þrjú fyrirtæki hérlendis selja öryggiskerfi sem hönnuð eru fyrir erfiðar aðstæður þar sem mikill raki eða kuldi er til staðar. Gripahús falla þar með undir byggingar eins og frystihús, fiskvinnslustöðvar, laxeldisstöðvar, bílaþvottastöðvar o.þ.h. byggingar þegar kemur að brunaeftirlitskerfum.


Brunaeftirlitskerfi þessara húsa byggja á s.k. loftsogs- eða reyksogskerfi, (á ensku nefnt Air sampling smoke detection systems) þar sem brunavarnarkerfið sogar loft eftir rörum frá þar til gerðum stútum í gegnum síur og loks að reykskynjaranum sjálfum. Kerfið „lærir“ þar með að þekkja fjósloftið og gefur viðvörun þegar breyting verður á. Eitt slíkt kerfi hefur verið starfandi frá því síðasta vetur á bænum Glitstöðum í Borgarfirði og virkar vel að sögn ábúenda. Þrjú samskonar kerfi hafa verið sett upp í öðrum fjósum í Borgarfirði í kjölfarið en lítil reynsla er komin á þau.


Þrjú brunaeftirlitskerfi eru í boði hérlendis sem undirrituðum er kunnugt um. Söluráðgjafar fyrirtækjanna eru án efa fúsir til að veita ítarlegar upplýsingar:


 • Eltek sem fyrirtækið Nortek flytur inn – www.nortek.is
 • Drengen sem Öryggismiðstöðin flytur inn – www.oryggismidstod.is
 • Harsh sem Securitas flytur inn – www.securitas.is

  Kostnaður við hvert kerfi fer eftir fjölda skynjara en ekki er ólíklegt að verð á ágætu kerfi væri á bilinu 200 – 300 þúsund krónur.


  Einnig er vert að vekja athygli bænda á s.k. töfluslökkvurum sem virka líkt og sjónvarpsslökkvarar sem margir þekkja. Ef upp kemur eldur í rafmagnstöflunni kviknar jafnframt í þar til gerðum kveikiþræði sem sprengir dufthylki sem slekkur eldinn. Stærð dufthylkisins fer eftir stærð töflunnar en miðað er við að 60-70 grömm séu ætluð fyrir hvern rúmmeter töflunnar.


  Flóttaleiðir:
  Allir bændur ættu að nota þetta tilefni til að fara yfir flóttaleiðir úr gripahúsunum. Hvernig er fljótlegast að tæma húsin? Í hvað röð ætti ég að gera það? Get ég aðeins opnað rennihurðirnar á fjósinu innan frá? Hvernig opna ég rennihurðirnar ef ekkert rafmagn er? Opnast milligerðin í stíunum aðeins inn í stíurnar?

  Verið búin að hugsa þetta, ræða þetta við aðra heimilismenn og jafnvel nágranna. Það er einfaldlega of seint í rassinn gripið ef aðstæðurnar koma upp…


  Tryggingar:
  Trúlega hafa allir bændur brunatryggingu á húsum sínum sem tekur yfir bygginguna sjálfa enda lögboðin trygging. Þó getur verið eitthvað mismunandi hvað af innanhúsbúnaði er tryggt, s.s. vélbúnaður, milligerðir, básadýnur o.þ.h. Spurningar vakna t.d. hvort bændur sem nýlega hafa staðið í breytingum á fjósum sínum hafi látið endurmeta fjósin m.t.t. brunatrygginga.


  En fleiri tryggingar skipta máli en brunatrygging húsanna. Gripirnir sjálfir skipta bændur verulegu máli hvort heldur sem er tilfinningalega eða peningalega . Peningar bæta ekki tilfinningaleg áföll en það ætti að vera óþarfi að þurfa að hafa peningaáhyggjur í ofanálag. Gripirnir þurfa því að vera vel tryggðir einnig. Ókostir slíkra trygginga eru að gripirnir eru alla jafna tryggðir samkvæmt skattmati en ekki markaðsvirði og farið er eftir síðustu forðagæsluskýrslu. Bændur sem hafa verið að stækka búin sín hratt og lenda í tjóni geta því mögulega fengið illa bætt það sem hún á þó að tryggja.


  Sérstaka athygli verður að vekja á s.k. rekstrarstöðvunartryggingu en það er trygging sem bændur ættu skilyrðislaust að hafa. Þó tekjurnar hætti að koma þarf eftir sem áður að borga af lánum og hafa fyrir nauðþurftum. Hefðbundnum tryggingum er aðeins ætlað að bæta fyrir skaðann sem verður á verðmætum en þær taka ekki á þeim tekjumissi sem verður þann tíma sem fer í að ná sér eftir áfallið, koma aðstöðunni upp aftur og ná jafnvægi í framleiðslunni. Slíkt tekur alltaf einhver misseri. Athygli er vakin á að ekki öll tryggingafélög bjóða bændum rekstrarstöðvunartryggingu. Kannaðu málið hjá þínu tryggingarfélagi… Ef hún er ekki í boði, skiptu þá um tryggingarfélag!


  Að þessu sögðu eru bændur því eindregið hvattir til að endurskoða tryggingar sínar reglulega, ekki sjaldnar en annaðhvort ár og oftar ef einhverjar breytingar verða í búrekstrinum.


  Jóhannes Hr. Símonarson
  BSSL


   


 • back to top