Gengislán dæmd óheimil

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla en maður á Akureyri var sýknaður af kröfu Lýsingar hf. vegna eftirstöðva af bílaláni. Lánið var veitt í íslenskum krónum og bundið dagsgengi erlendra mynta.
Í dómsorði segir m.a.: „Viðskiptaráðherra skipaði árið 2000 nefnd til að endurskoða vaxtalög nr. 25/1987 og lagði fram frumvarp á 126. löggjafarþingi sem varð að lögum nr. 38/2001. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu segir: „Þær breytingar sem lagðar eru til að gerðar verði á verðtryggingarkafla vaxtalaga eru eftir farandi: Heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru felldar niður …“

 Í athugasemdum við 13. gr. frumvarpsins segir: „Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður …“ Um 13. og 14. gr. segir: „Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi”. Sami skilningur kom fram í umræðum á Alþingi um málið og engar breytingar voru gerðar á fyrrnefndum ákvæðum frumvarpsins í meðförum Alþingis.“


Af niðurstöðu dómsins verður að draga þá ályktun að kröfur fjármögnunarfyrirtækja séu margar hverjar í uppnámi. Þá hljóta jafnframt að vakna spurningar um birtingu vöruverðs sem bundið er við erlenda mynt á þann hátt að endanlegt vöruverð ræðst af gengi á greiðsludegi. Í ljósi mikilvægi dómsins má vera ljóst að dómnum verður án efa áfrýjað til Hæstaréttar.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur


 


 


back to top