Félagsráðsfundur FKS 8. júní 2011

Fundur haldinn í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi í Björkinni á Hvolsvelli 8.júní 2011.

1. Fundarsetning
Formaður, Þórir Jónsson Selalæk, setti fund kl.20.30 og bauð fundarmenn velkomna og kynnti dagskrá. Sagði frá því að frá síðasta félagsráðsfundi hefðu verið haldnir aðalfundir LK og Bssl. Þar fóru inn tillögur frá félaginu. Auk þess tók félagið þátt í Sunnlenskum sveitadegi á Selfossi í maí sl.


2. Af vettvangi LK – Sigurður Loftsson formaður LK
Sigurður dreifði samantekt um störf verðlagsnefndar og verðþróun verðlagsgrundvallar og  sagði frá fundi verðlagsnefndar sem haldinn var í gær og þar var ákveðið að ná niðurstöðu í verðlagsmálum mjólkur fyrir 1.júlí nk. Annar fundur verður næsta föstudag. Fjallaði um hækkunarþörf út frá reiknuðum hækkunum á aðföngum sem er veruleg. Gat um að hann hefði rætt um það á fundi verðlagsnefndar í maí að ástæða væri til endurskoðunar á verðlagsgrunni. Meðal nefndarmanna hefði þessi tillaga ekki fengið hljómgrunn enn sem komið er. Ljóst að mjólkuriðnaðurinn telur sig þurfa á hækkun að halda í ljósi hækkana launa og aðfanga.


Sölumálin ganga ekki nægilega vel, í apríl var hún um 114 milljónir lítrar á próteingrunni og 110 milljónir á fitugrunni.


Vesturmjólk er farin af stað og markaðssetur jógúrt í verslunum, væntanlega úr umframmjólk. Hafa lýst því yfir að þessi framleiðsla sé án ríkisstyrkja, í raun eru öll búin með eitthvert greiðslumark.
Ómar í Lambhaga spurði um aðgengi þessara aðila að innvigtun inn í Auðhumlu, hvort ekki ætti að loka á innvigtun á þá þar.
Sigurður Loftsson sagði að lagaleg staða þessara mála verði skoðuð hið fyrsta.
Þá ræddi hann skort á nautakjöti og það væri mikil pressa á aukinn innflutning. Síðustu misseri hefði verð hér innanlands hækkað til framleiðenda.


Lokafundur stefnumörkunarhópsins er á morgun. Skjalið fer til skoðunar til aðalfundarfulltrúa í sumar og síðan afgreitt og kynnt á haustdögum. Einn hluti þessa verks er þegar komið í gang þ.e. verkefnið „betri bústjórn“ Verkefnið hefur þróast með öðrum hætti en lagt var upp með en reynt verður að tengja saman gögn úr Dk-búbót, Huppunni og NorFor. Síðan yrði leitað til einstakra bænda um upplýsinga, þ.e. til þeirra sem eru að standa sig vel í rekstri.


Þá ræddi Sigurður skýrslu sem nýlega kom út um innlenda kornrækt. Þegar skýrslan var kynnt hafði landbúnaðarráðherra þau orð uppi að hann myndi leita til BÍ um mögulegar breytingar á núgildandi búvörusamningi. Formaður spurði um álit fundarmanna á slíku en fannst þetta bera að með nokkuð skrýtnum hætti. Þegar er búið að breyta núgildandi búvörusamningi einu sinni að kröfu ríkisins.


Taldi ekki miklar líkur á fjölgun markaðsdaga vegna kvótamarkaðar en næsti dagur er samkvæmt reglugerð  1.nóv. nk.


Ræddi loks stuttlega framtíð búnaðargjalds og nýtingu fjármuna þess. Lítið hefur gerst í þeim málum síðustu mánuði.


Björn í Holti velti fyrir sér hver raunveruleg hækkunarþörf væri á afurðaverði á mjólk.
Ómar í Lambhaga ræddi hækkunarþörfina og hvað markaðurinn þyldi og horfa þyrfti einnig á hækkun  matvara t.d. í Evrópu.
Valdimar í Gaulverjabæ taldi verulega þörf á hækkun út frá aðfangaverði, horfa yrði á hækkanir erlendis á hrávörum. Slíkar hækkanir eru að lenda af fullum þunga á bændum. Einnig að hækka sjaldnar verð til bænda en þá meiri hækkun í hvert sinn.
Ólafur í Hraunkoti sammála Valdimar um nauðsyn hækkunar.
Ásmundur í Norðurgarði sagði þörf á að knýja fram verulega hækkun núna.
Kjartan í Fagurhlíð velti fyrir sér hvort  mikil hækkun þýddi lítið magn  eða lítil hækkun og  þá mikið magn.
Sævar í Stíflu lagði áherslu á nefndin ynni eftir þeim grunni sem er lagður upp með, þ.e. verðlagsgrundvöllur kúabús.
Þórir á Selalæk sagðist leggja áherslu að ná sem mestri hækkun núna í ljósi aðfangahækkunar síðustu missera.
Pétur í Hvammi velti fyrir sér hvort ekki ætti að leggja áherslu á bændaþáttinn og hækkun þeim megin. Iðnaðurinn yrði frekar að taka eitthvað á sig.
Jóhann í St-Hildisey velti fyrir sér hvað markaðurinn þyldi í verðhækkun, hækkun má ekki koma fram í miklum sölusamdrætti.
Ágúst í Bjólu velti fyrir sér hvort ekki þyrfti að leiðrétta innbyrðis verðlagningu einstakra vara.
Sigurður í Steinsholti sagði að það myndi væntanlega gerast að einhverju leyti við næstu ákvörðun verðlagsnefndar.
Samúel í Bryðjuholti spurði hvort lífeyrisiðgjöldin væru inn í hækkunarþörfinni.
Sigurður í Steinsholti sagði þá breytingu ekki vera inn í grunninum en henni yrði haldið til haga.
Andrés í Dalsseli hvatti  nefndarmenn bænda að leggja áherslu á  núverandi hækkunarþörf með borðleggjandi rökum. Síðan væri möguleiki að semja um ákveðinn afslátt.


Fundarmenn almennt á móti því að auka greiðslur úr mjólkursamningi inn í jarðrækt og þá kornrækt.


Rætt um kvótamarkað og litla virkni hans. Líklegt að virkni kvótamarkaðarins vaxi þegar hann þróast í ljósi reynslunnar.


Kjartan í Fagurhlíð spurði um nautakjötsmál og utanumhald þeirra mála hvað varðar upplýsingar um ásetning gripa.
Sigurður í Steinsholti taldi að allar upplýsingar lægju betur fyrir en áður og sláturleyfishöfum hefði verið kynnt í hvað stefndi varðandi þa stöðu sem komin er upp núna.
Ómar í Lambhaga ræddi þá kröfu sem komin er sumstaðar að gerð er krafa um að bóndinn tiltaki númer hvers sláturgrips viku fyrir slátrun.


3. Farið yfir stöðuna á gossvæðinu.- Runólfur Sigursveinsson
Fyrr í dag var haldinn  upplýsingafundur ætlaðan bændum í Skaftárhreppi um ástand mála. Fundurinn haldinn að frumkvæði Búnaðarsambandsins. Alls eru 68 býlií Skaftárhreppi sem eru með einhvern bústofn að ráði. Búið að heimsækja flest alla bændur í hreppnum – suma tvisvar eða oftar. Farið hefur verið yfir stöðuna á hverjum bæ, mæld öskuþykkt, kornakrar skoðaðir og tún og lagt á ráðin með áburðargjöf.
Mun minni flúor er í öskunni en í fyrra – fylgst er með efnum í grösum, heldur minni fosfór og kali en ívið meira af Magnesíum og Ca og S en var í Eyjafallagosinu..
Ástandið  er verst í Fljótshverfi – þar eru 3 kúabú með um 85 mjólkurkýr auk þess 6 bæir þar með sauðfé alls um 1.000 fjár. Öskuþykkt átúnum þar frá 2,5 cm upp í 6-8 cm.
Veruleg þörf á skurðahreinsun þar og reyndar víða.
Bændur munu reyna að afla heyja sem mest heima en þó má gera ráð fyrir allnokkri heyöflun utan svæðis.
Afréttarmál eru  til skoðunar – reiknað með meiri nýtingu heimalanda og að Leiðvallagirðing verði nýtt eins og í fyrra.
Bjargráðasjóður mun koma að málum -, væntanlega á svipaðan hátt og í fyrr.
Einhver  afföll eru á sauðfé vegna blindu og að lömb flæmdust undan ám
Búast má við töluverðum áhrifum á vélbúnað tækja og véla við heyskap.


4. Lánamál bænda í ljósi nýjustu aðgerða Landsbankans-Runólfur Sigursveinsson
Málin ganga hægt – þó er lokið endurreikning vegna kaupleigu á tækjum/vélum/bílum í flestum tilvikum.


Landsbankinn endurreiknar  alla „erlenda“ lánasamninga sem eru með veð í jörðum og eru á einstaklingskennitölum og samvinnufélög/sameignarfélög en ekki ehf.
Það er gert út frá upphaflegum höfuðstól og síðan bornar saman greiðslur til dagsins í dag og á móti hverjar greiðslur hefðu verið ef vextir Seðlabanka hefðu verið notaðir. Niðurstöður sýna lækkun frá ca. 25% upp í rúmlega 50% lækkun á höfuðstól eins og hann var/er miðað við stöðu í dag.
Ef ekki þarf að breyta lánstíma þá eru mismunandi  kostir í boði, óverðtryggð kjör eins og Seðlabanki Íslands  birtir gagnvart bönkum um vexti af peningakröfum – eru nú 5,25%
verðtryggð kjör –  eru nú 4,3%
Síðan velja menn á milli lánsformannna; jafnar afborganir eða jafnaðargreiðslur (annuietsform).
Þessi kjör eru til boða næstu 5 ár – eftir þann tíma koma til almenn vaxtakjör LÍ. – eða hugsanlega geta menn greitt upp eða inn á eftistöðvar á 5.ári.
Ef  ekki tekst að ráða við greiðslubyrði einstakra lánasamninga (aðallega vegna þess að lánstíminn er of stuttur) => er samið um lánalengingu og þá gilda kjörvextir  LÍ á þeim samningum strax.
Varðandi innlendu lánin og úrræði LÍ þá munu bændur þar einnig geta nýtt sér þau úrræði, rekstur á eigin kennitölu, (vaxtaendurgreiðsla), allt að ein milljón kr. endurgreiðsla á vöxtum.


Arion heldur sig enn við sömu útfærslu og áður með rekstrarlán/biðlán en er þó farinn að skoða hvað endurútreikningur mögulega þýddi fyrir einstök bú…


Íslandsbanki gaf það til kynna síðla vetrar að hann færi í endurútreikning á „erlendum“ lánasamningum gagnvart bændum – enn sjást ekki þess merki í raun..


Sigurður Loftsson sagði frá fundi sem LK átti með fulltrúum Arionbanka í maí; þar kom fram 64 kúabændur þyrftu sértæka skuldaaðlögun á landsvísu ,  36 hafa fengið sértæka skuldaaðlögun,  6 bændur með skuldaaðlögun í vinnslu, 21 mál í vinnslu og eitt bú færi í gjaldþrot. Hins vegar kom fram hjá þeim að eigendur bankans gerðu ríka kröfu um að ekki yrði gefið eftir af kröfum nema því aðeins lög segi til um það.
Samúel í Bryðjuholti nefndi ummæli starfsmanns Landsbankans um rökstuðning fyrir vaxta endurgreiðslu í fjölmiðlum nýlega í þá veru að bankinn væri í raun ekki að skaðast meira með því að gefa eftir einstaka kröfur þar sem greiðslugetan yrði að vera meira ráðandi í lausnum og því væru þær aðgerðir sem hann hefði boðað nauðsynlegar.

5. Önnur mál
a. Breytingar á fyrirkomulagi dýralæknaþjónustu á svæðinu
Þórir á Selalæk ræddi breytingar á fyrirkomulagi dýralæknaþjónustu á svæðinu og nauðsyn þess að félagið hefði afskipti af málinu. Ákveðið að stjórnin leggi fram drög að ályktun um málið og hún verði send til félagsmanna félagsráðsins til kynningar og athugasemdar á næstu dögum og síðan afgreidd af stjórn félagsins.


b. Kótelettan á Selfossi 
Þórir á Selalæk nefndi að Kótelettan á Selfossi yrðu á laugardaginn og nautakjöt verði grillað  milli kl. 13 og 16. Þórir óskaði eftir sjálfboðaliðum til starfa.


c. Aukin tengsl við fjölmiðla
Sigríður á Fossi spurði um tillögu sem lögð var fram á fundi FKS inn á aðalfund LK um aukin tengsl við fjölmiðla.
Þórir á Selalæk svaraði því til að tillagan hefði verið rædd á fundi LK og væntanlega yrði málið rætt áfram.
Ómar í Lambahaga ræddi umfjöllun fjölmiðla t.d. vegna díoxinmengunar. Mikilvægt væri að vanda slíka umfjöllun og að stofnanir eins og MAST og BÍ  standi sig í stykkinu.

d. Kúasýning í ágúst
Runólfur nefndi að áhugi væri lítill  á þátttöku á sýningu enn sem komið væri. Rætt um mikilvægi góðrar þátttöku og velt fyrir sér framkvæmdinni, hvort höfða þyrfti meira til ungmenna og barna.


e. Breytingar á heysýnatöku
Runólfur boðaði breytingar á skipulagi heysýnatöku í sumar – í stað hirðingarsýna yrði lögð meiri áhersla á verkunarsýni og sagði jafnframt frá því að LbHÍ myndi sinna áfram efnagreiningaþjónustu gagnvart heysýnum. Þá yrði farið í markvissari fóðurráðgjöf til kúabænda næsta haust og vetur í tengslum við upptöku norræna fóðurmatskerfisins NorFor.


Fundarmenn lýstu efasemdum um að niðurstöður bærust nægilegt fljótt til nota ef þessari aðferð yrði beitt með hliðsjón af reynslu síðustu ára. Vakin athyli á því að t.d. fyrirtækið Lífland hefði boðið upp á þjónustu á sviði efnagreininga heysýna síðustu ár og þar væri ferillinn frá því sýnið er tekið og niðurstöður berast  eftir til viðkomandi bónda  eftir viku til tíu daga.


f. Upplýsingar um fóðuröflunarkostnað 
Runólfur nefndi að búið væri að setja inn á heimasíðu Bssl kornræktarlíkan  þar sem bændur gætu sett kostnaðartölur inn og séð hver kostnaður væri út frá rauntölum á hverja einingu í uppskeru. Einnig nefndi hann að verið væri að vinna í að gera sér betur grein fyrir fóðuröflunarkostnaði einstakra búa sem eru innan SUNNU-verkefnisins.


Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 00.30

Runólfur Sigursveinsson ritaði fundargerð


back to top