Bjargráðasjóður mun koma svipað að málum og eftir eldgosið í Eyjafjallajökli

Ríkisstjórnin fjallaði á fundi sínum í morgun um ýmsar aðgerðir í kjölfar eldgosa. Samþykkt var að veita nú 54,3 milljónir króna til úrbóta í kjölfar eldgosa í Grímsvötnum, Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi. Ákvarðanir um frekari fjárveitingar verða teknar um leið og frekari úttektir á aðstæðum og fjárþörf liggja fyrir. Áður hafði ríkisstjórnin samþykkt 867,7 m.kr. vegna ýmissa þátta og viðbragða í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi. Með þessari samþykkt um 54,3 m.kr. til viðbótar eru heildarframlög úr ríkissjóði á árinu 2010 og 2011 vegna eldgosanna þriggja orðin 922 m.kr. Þar að auki hafa Bjargráðasjóður og Viðlagatrygging staðið straum af umtalsverðum útgjöldum auk þess sem ráðuneyti og stofnanir hafa breytt forgangsröðun sinni og verkefnum til þess að mæta afleiðingum eldgosanna.

Eftirfarandi verkefni voru samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun:


Fjárframlag til Landgræðslu ríkisins
Samþykkt var að ríkisstjórnin veiti aukafjárframlag til Landgræðslu ríkisins til mikilvægra og brýnna uppgræðsluverkefna til að hefta öskufok og sandfok á gossvæðunum. Um er að ræða samtals 40,0 m.kr., sem skiptist með þeim hætti að annars vegar er um að ræða framlag til að hefta öskufok á svæðunum við Kirkjubæjarklaustur og Fljótshverfi og hins vegar framlag til að hefta öskufok í byggð undir Eyjafjöllum og á Markarfljótsaurum auk sandfoks úr uppmokstri ánna undir Eyjafjöllum sem hefur ógnað umferð um hringveginn, skaðað ökutæki og truflað búskap á svæðinu. Jafnframt er umhverfisráðuneytinu falið að fara yfir með Landgræðslunni forgangsröðun verkefna í þágu öskufallssvæða undir Eyjafjöllum og í Skaftárhreppi.


Fjárþörf Vegagerðarinnar
Á síðasta ári veitti ríkisstjórnin Vegagerðinni og fleiri stofnunum viðbótarfjárheimildir til að mæta hluta þess kostnaðar sem á þær hafa fallið vegna neyðaraðgerða og framkvæmda á gossvæðinu. Að auki samþykkti ríkisstjórnin viðbótarframlag til Vegagerðarinnar vegna lagfæringa á bæjarhlöðum og heimreiðum á fundi sínum 30. nóvember sl. Innanríkisráðuneytið og Vegagerðin áforma að verkið verði framkvæmt í sumar. Þar sem líkur eru miklar á áframhaldandi aurframburði niður í vatnsföll liggur fyrir að nokkur fjárþörf mun verða á næstu misserum til aðgerða vegna flóðavarna, samgöngumannvirkja, moksturs upp úr árfarvegum og vegna aðgerða til að hefta öskufok á svæðinu sem og til rannsókna. Innanríkisráðuneytinu var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun falið að meta og greina viðbótarfjárþörf Vegagerðarinnar og forgangsröðun verkefna hennar sem tengja má sérstaklega framkvæmdum á áhrifasvæðum eldgosanna og ekki rúmast innan þess fjárlagaramma sem fyrir er.


Bjargráðasjóður
Samþykkt var að unnið verði eftir reglum Bjargráðasjóðs nú í kjölfar eldgossins í Grímsvötnum eins og gert var í kjölfar gosanna í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið mun fylgja þessu eftir og tryggja að Bjargráðasjóður viðhafi sambærilegt verklag og gert var í fyrra og hefjist þegar handa við tjónaskoðun á gossvæðinu.


Loftgæðamælingar
Samþykkt var að veita 6,2 m.kr. fjárframlag vegna uppsetningar annars svifryksmælis á gossvæðið þannig að mæla megi loftgæði á stærra svæði. Mælirinn mun koma til landsins og verða tekinn í notkun fyrri hluta næsta mánaðar.


Kostnaður vegna fyrstu viðbragða í kjölfar eldgossins í Grímsvötnum
Unnið er að því að taka saman helsta kostnað sem hefur fallið til vegna fyrstu viðbragða í kjölfar eldgossins í Grímsvötnum og stefnt er að því að slík samantekt liggi fyrir í lok þessa mánaðar. Í meginatriðum er hér annars vegar um að ræða kostnað vegna björgunar- og neyðaraðgerða og hins vegar hreinsunarstarfs. Í samráði við Almannavarnadeild hefur verið ákveðið að íbúum og fjölskyldum í Fljótshverfi verði boðið upp á húsnæðismöguleika til skemmri tíma í sumar meðan öskufok stendur hvað hæst.Samráðshópur ráðuneytisstjóra um viðbrögð við náttúruhamförum mun leggja upplýsingarnar um kostnaðinn fyrir ríkisstjórn um leið og þær liggja fyrir. Við upphaf eldgossins í Grímsvötnum var heilbrigðisþjónusta á áhrifasvæðum þess efld til muna með aukinni þjónustu lækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og sjúkraflutningamanna. Mestur þungi vegna aukinnar heilbrigðisþjónustu varð hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.


Átaksverkefni vegna þjónustu við ferðamenn á gossvæðum
Iðnaðarráðherra og velferðarráðherra hafa þegar lagt fyrir ríkisstjórn minnisblað varðandi átaksverkefni vegna þjónustu við ferðamenn á gossvæðum. Átakið snýr að markaðssetningu, upplýsingaveitu, Kötlusetri og Katla-geopark. Iðnaðarráðuneytið mun halda utan um átaksverkefnið og fjármagnar það af sínum liðum og í samstarfi við Atvinnuleysistryggingasjóð. Ekki er talin þörf á nýjum fjárheimildum vegna verkefnisins. Samráðshópur ráðuneytisstjóra mun á næstu fundum sínum fjalla nánar um mögulegan stuðnings ríkisins við ferðamál á svæðinu.


Búnaðarsamband Suðurlands
Ríkisstjórnin staðfesti 6 milljóna kr. styrk til Búnaðarsambands Suðurlands vegna aðstoðar sambandsins við bændur á gossvæðinu í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli. Styrkbeiðnin er sem nemur einu ársverki en sambandið hefur lagt út kostnað vegna aðstoðarinnar sem nemur vinnuframlagi upp á 3.843 stundir eða rúmlega tvö ársverk. Þá hefur sambandið jafnframt notið stuðnings frá norskum bændum og frá Bjargráðasjóði. Heildarkostnaður sambandsins, sem það ber aukalega, er 15 m.kr.


Slysavarnarfélagið Landsbjörg
Ríkisstjórnin samþykkti 2,1 m.kr. fjárframlag til Landsbjargar vegna kostnaðar á síðasta ári við flutninga vísindamanna vegna fyrstu viðbragða í kjölfar eldgosanna í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi.


Samráðshópur ráðuneytisstjóra um viðbrögð við náttúruhamförum hefur frá því í maí á síðasta ári fjallað heildstætt og með samræmdum hætti um kostnað sem tengja mætti neyðaraðgerðum á gossvæðinu í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi, auk ýmissa annarra úrlausnarefna. Með hópnum starfa fulltrúar frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, fjármálaráðuneyti og forsætisráðuneyti. Hópurinn mun starfa áfram og fjalla um þá þætti sem þörf er á að skoða nánar á síðari stigum eftir þróun mála á eldgosasvæðunum og á meðan viðbragða er þörf.


back to top