Félag lýsir þungum áhyggjum af stöðu dýralæknamála í V-Skaft.

Félag kúabænda á Suðurlandi hefur sent frá sér tilkynningu þar sem lýst er þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp kann að koma í V-Skaftafellssýslu eftir 1. nóvember n.k. Þá mun að öllu óbreyttu embætti héraðsdýralæknis í sýslunni verða lagt niður og falla undir eitt af sex embættum héraðsdýralækna á landinu, svokallað Suðurumdæmi sem mun ná yfir Ásahrepp, Bláskógabyggð, Flóahrepp, Grímsnes- og Grafningshrepp, Hrunamannahrepp, Hveragerðisbæ, Mýrdalshrepp, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skaftárhrepp, Skeiða- og Gnúpverjahrepp, Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Ölfus og Vestmannaeyjabæ.
Tilkynning Félags kúabænda fer hér á eftir:

Vakin er athygli á þeirri stöðu sem upp er komin. Héraðsdýralæknir V- Skaftafellssýslu hættir störfum 1. nóvember n.k.
Félagið lýsir áhyggjum yfir þeirri stöðu sem kann að skapast við niðurlagningu héraðsdýralæknisembættisins  í  Vestur-Skaftafellssýslu, en héraðsdýralæknir hefur verið staðsettur á Kirkjubæjarklaustri. Eftir stendur frekar rýr staða fyrir dýralækni  svo ekki er víst að nokkur sækist eftir að reka þjónustu á svæðinu. Með búvöruframleiðslu í huga og með tilliti til dýravelferðar er óviðunandi að kalla þurfi eftir dýralæknaþjónustu sem er vel á annað hundrað kílómetra  í burtu. Þar fyrir utan er ekki ljóst hvort  dýralæknar sem eru staðsettir á Hvolsvelli og Höfn í Hornafirði geti sinnt dýralækningum á  svæðinu sökum  fjarlægða.
Afleiðingar eldgossins í Grímsvötnum á búfénað eru ekki allar komnar fram  og gerið það málið öllu alvarlegra. Það er krafa Félags kúabænda á Suðurlandi að stjórnvöld geri ráðstafanir til þess að starfsumhverfi dýralæknis í Vestur-Skaftafellssýslu verði  með þeim hætti  að hann geti haft búsetu í sýslunni.

Félag kúabænda á Suðurlandi“


back to top