Félagsráðsfundur FKS 17. nóvember 2014

Fundur haldinn í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi mánudaginn 17. nóvember 2014 í fundarsal MS, Selfossi.
1.Kynning
Valdimar bauð fundargesti velkomna og kynnti dagskránna. Þá stakk hann upp á að halda aðalfund félagsins í lok janúar næstkomandi. Uppstillingarnefnd verður starfrækt eins og undanfarið.
2.Málefni LK
Jóhann í Hildisey kynnti hvað væri í farvatninu hjá LK. Ekkert sé að frétta af búvörusamningi og beðið sé eftir skýrslu Hagfræðistofnunar. Eins er beðið eftir niðurstöðu um hvort nýtt erfðaefni í holdanautastofnana verði flutt inn, til þess þurfi að breyta lögum. Hann ræddi neikvæða umfjöllun um mjólkurframleiðsluna, s.s. MS-málið, og að BÍ sé í samstarfi við almannatenglsafyrirtæki til að bæta ásýnd á mjólkurframleiðsluna. Viðtal í Kastljósi við formann LK hafi verið liður í því verkefni. Jóhann nefndi að MS-málið væri í ákveðinni lægð núna, en beðið væri eftir næsta útspili Samkeppnisstofnunar.
Valdimar í Gaulverjabæ spurði um búnaðargjaldið.
Jóhann svaraði því að af því væri ekkert að frétta en að formaður LK sitji í hópi um endurstokkun á félagskerfinu og að sú vinna sé í gangi.
Ólafur í Hraunkoti spurði um Nautastöðina.
Jóhann svaraði að þar væri ekkert að frétta nema það að þar væri komið samkomulag en að stjórn BÍ væri ekki búin að ákveða sig og að málið þurfi að fara fyrir Búnaðarþing.
Páll í Núpstúni ræddi framkomna þingsályktunartillögu um innflutning á nautasæði og spurði Jóhann hvort væri verið að taka fram fyrir hendur LK.
Jóhann svaraði því svo að þetta væri bara þingsályktunartillaga og að LK hefði ekkert einkaleyfi á því að fjalla um svona mál. LK kom ekkert að gerð þingsályktunartillögunni nema að það veitti upplýsingar sem sótt var eftir. Hann ræddi einnig kvótamarkaðinn og að óskað hefði verið eftir því við ráðherra að afnema kvótamarkaðinn og gefa viðskipti frjáls til eins árs. Nú séu miklar breytingar og þurfi að auka greiðslumark og að heilmargir eigi ekki eftir að geta fyllt kvóta sinn á næsta ári.
Ólafur í Hraunkoti spurði hvort það yrði þá auðveldara að selja sín á milli ef markaðurinn yrði aftengdur.
Jóhann játti því og nefndi að verðið myndi ekki endilega hækka.
Páll spurði hvort það væri betri, ef verðið hækkar ekki. Þá sé eins gott að hafa markaðinn áfram.
Jóhann rifjaði upp af hverju markaðnum var komið á laggirnar, að það hafi átt að stoppa öll viðskipti til að stöðva hrókeringar með kvóta milli bújarða. Hann sagði að markaðurinn hafi ekki reynst illa hingað til en nú séu nánast engin viðskipti og það sé ekki æskileg þróun.
Samúel í Bryðjuholti vildi halda markaðnum inni á meðan núgildandi búvörusamningur er í gildi.
Pétur í Hvammi lýsti því hvað er erfitt að hafa kvótann bundinn á einni jörð, og að það sé hagkvæmt að geta fært á milli, sér í lagi þegar er verið að auka kvótann milli ára.
Sigríður á Fossi fór yfir aðstæðurnar í dag, að öll umframmjólk sé keypt á fullu afurðarstöðvarverði og að ekki sé aðkallandi að kaupa kvóta, verði þá mikil viðskipti á næsta ári?
Elín í Úthlíð nefndi að möguleg tækifæri gætu líka verið hættur, hvernig verði þróun hjá stærstu aðilunum? Hvað verða margir bændur á bak við framleiðsluna eftir 20 ár?
Jóhann svaraði því að það sé erfitt að sjá framtíðina fyrir sér, t.d. viti enginn hvernig næsti búvörusamningur líti út.
Elín í Egilsstaðakoti nefndi að það yrði að passa að ekki yrði mikil offramleiðsla heldur og leit yfir farinn veg í þeim efnum.
Pétur sagði að kerfið sjái um þau mál núna. Kvóti næsta árs hverju sinni sé ákveðinn af framleiðsluspá, birgðahaldi og sölutölum hverju sinni.
Páll nefndi að skortur þessa og síðasta árs hafi meðal annars komið til vegna birgðastöðu MS og að henni hafi verið haldið í lágmarki til að halda MS á núli.
Jóhann fór yfir sölumálin og sagði að það sé enn söluaukning.
Jórunn á Drumboddsstöðum spurði hvort kvótinn myndi stjórna einhverju öðru en beingreiðslum ef tekið yrði upp eitt verð fyrir alla mjólk, hvort sem það er mjólk innan greiðslumarks eða utan.
Jóhann svaraði því að það þyrfti að koma til flutningur á kvóta til að nýta bestu framleiðsluaðstæðurnar í landinu. Þannig væri hægt að ná fram framleiðsluaukningu.
Ólafur spurði hvernig kvótaverðið hefði þróast ef markaðurinn hefði ekki verið tekinn upp á sínum tíma.
Páll nefndi að verðið hefði í raun ekkert lækkað í verði, þar sem kvótaafskriftir hefðu verið afnumdar á sama tíma og markaðurinn var settur á.
Karel í Seli sagði að það hefði ekki verið hægt að kaupa kvóta á þessum tíma vegna verðs og að markaðurinn hefði jafnað aðgengi bænda að kvóta.
Sævar í Stíflu nefndi það að markaðurinn væri hættur að virka og að það yrði að aftengja hann í bili.
Jóhann ræddi það að tvö ár væru eftir af núverandi samningi og að það yrði borgað fullt afurðastöðvaverð fyrir mjólk næsta árs og að það sé ekkert víst að nokkuð breytist eftir 2016. Nú sé því ekki hægt að borga meira fyrir kvótann en sem nemur stuðningi næstu tveggja ára, eða þar til samningurinn rennur út. Annað væri eins og að spila í lottói.
Samúel talaði um að á markaðinum í mars 2014 hafi einhverjar milljónir verið boðnar fram og þessar milljónir séu eflaust enn til sölu þó þær hafi ekki farið á markað í lok árs.
Eyvindur í Stóru-Mörk ræddi það hvað væri erfitt þegar kæmi að búskaparlokum og að ekki mætti spenna bogann of hátt (óska eftir of háu verði fyrir kvótann) því annars væri hætt við að ekkert seldist.
Ragnar á Litla-Ármóti sagði að fróðlegt yrði að sjá hvernig næsti markaður færi.
Sigríður spurði hvernig yrði aukning í mjólkurframleiðslu ef markaðurinn yrði felldur niður og flæði kæmi á kvótann.
Jóhann svaraði því að víða væri ónýtt framleiðsluaðstaða þar sem ekki væri kvóti og hana mætti nýta. Aðrar jarðir færu þá úr framleiðslu.
Tanksýni
Valdimar reifaði næsta umræðumál; breytingar á efnahlutföllum grundvallarmjólkur. Hann nefndi að breyting á grundvallarmjólk í byrjun árs hafi verið brött. Hann sagði nokkra bændur hafa haft samband við sig og þótt fyrirhuguð breyting milli próteins og fitu aftur nú, mikil í einu stökki.
Jóhann svaraði því að það sé verið að prófa sig áfram í mælingum á tankmjólk.
Bóel á Móeiðarhvoli spurði hvort þessu máli yrði frestað um eitt ár.
Jórunn spurði hvort væri hægt að breyta þessu á miðju ári.
Jóhann svaraði því að að svo væri, það væri SAM sem stjórnaði því.
Pétur sagði frá misvísandi fyrirmælum til mjólkurbílstjóra sem ekki mættu vera mikið lengur en 3-5 mínútur á hverjum bæ að sækja mjólk en að það þyrfti samt að hræra í tanknum í 3 mínútur áður en tanksýni væri tekið.
Jóhann nefndi að það hefði verið rætt að fjölga tanksýnum og taka sýni í hvert sinn sem mjólkin er tekin og reikna meðaltal út frá því. Þannig væri jafnvel hægt að kippa hæsta og lægsta gildi út. Hann fór yfir það að meira mál væri að mæla fitu en prótein, enda getur fitan flotið upp á yfirborðið í tanknum. Hann ræddi það einnig að þetta væri mjög mikilvægt fyrir bændur enda grundvöllur fyrir útborgun á mjólk.
Reynir á Hurðabaki ræddi hvað munur milli tanksýna gæti verið mikill. Hann hefði séð slíkt á sínu búi. Þá ræddi hann tilvik með líftölu á bæjum þar sem mjólkin hefði fallið vegna líftölu. Hann ræddi það hvort væri rétt að MS ræki rannsóknarstofuna, spurning væri hvort ætti að slíta í sundur rannsóknarstofuna og MS og frekar fá óháðan aðila til að mæla verðefnamagn.
Samúel ræddi fall á verðefnum 14. október. Hann hefði hringt á rannsóknarstofuna til að leita svara en þar hefði verið fátt um svör. Hann ræddi hvort MS væri með innra eftirlit með tanksýnum og hvort ekki kviknuðu viðvörunarljós þegar heilu landshlutarnir (300 bæir) féllu í verðefnum á einni nóttu.
Jóhann velti því upp hvort það væri ekki upplagt fyrir FKS að ræða þetta mál við MS. Hann tók undir að það væri mikilvægt að það væri einhvers konar vöktun í gangi og að slíkum hlutum yrði kippt í lag strax ef kæmu upp vandamál.
Menntunarmál
Samúel vildi ræða menntunarmál og nefndi að ekki væri til neinn listi hjá LbhÍ yfir möguleg lokaverkefni háskólanema innan nautgriparæktar. Það væri dapurlegt að stærsta atvinnugrein í landbúnaði væri ekki með slíkan lista og ekki væri verið að gera lokaverkefni í nautgriparækt núna. Mastersnemar væru í lausu lofti nú þegar uppsagnir væru hjá LbhÍ og spurning hvernig þeirra verkefni færu.
Páll spurði hvort það væri satt að nemendur á Hvanneyri fengju ekki að fara í fjósið.
Jóhann fór yfir fjósmálin á Hvanneyri, að reksturinn gengi ekki vel en það standi til að bæta málin.
Arnfríður á Herjólfsstöðum sagði frá því að fjósið hefði verið nýtt til kennslu þegar hún var á Hvanneyri, en þá frekar til að sýna hvernig ætti ekki að gera hlutina. Hún sagði einnig frá því að það væri í raun ekki til neitt kennsluefni í nautgriparækt og erfitt sé að hafa skikk á hlutunum þegar alltaf væri verið að skipta um kennara í nautgriparækt.
Jóhann sagði að nýta þyrfti fjósið í kennslu og að það yrði að vera í topp standi, enda kæmi þar margt fólk til að skoða. Hann velti fyrir sér hvernig rannsóknarstarf færi fram nú þegar styttist í að margir rannsóknarmenn fari á eftirlaun. Hvort skólanum hefði ekki verið betur borgið með sameiningu við HÍ, því þar voru peningar í boði til uppbyggingar. Í staðinn sé mikill niðurskurður og uppsagnir.
Valdimar vildi smíða ályktun og lýsa þannig yfir áhyggjum á menntunarmál í greininni.
Ragnar spurði hvort LK væri með einhverja nefnd sem einblíndi á kennslumál og rannsóknir.
Elín í Egilsstaðakoti spurði hvort Fagráð ætti að hafa einhver afskipti af slíkri nefnd.
Jóhann sagðist ætla að taka þetta mál upp við LK.
Vægi einstakra þátta í kynbótamati
Ragnar spurði hvort of mikil áhersla væri lögð á prótein með kynbótum.
Jóhann svaraði því að það væri verið að ræða þessi mál í fagráði og ræktunaráherslur almennt. Til dæmis þarf að taka fleira inn í kynbótamatið – svo sem tæki til að minnka skyldleika gripa í stofninum. Vægisbreytingar í kynbótamati skili sér seint.
Matarhlé.
Fréttir frá BSSL
Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri BSSL, mætti á fundinn og fór yfir sæðingastarfsemina á Austurlandi. Til stendur að Kynbótastöð Suðurlands taki við sæðingastarfsemi á Austurlandi. Á Austurlandi séu 20 kúabú sem framleiða alls 4 milljón lítra. Á svæðinu séu um 800 kýr – eða um 1000 gripir í heildina ef kvígur eru taldar með. Vopnafjörður hafi eigin sæðingastarfsemi og verði ekki með í starfinu. Á Austurlandi séu 55 km bak við hverja sæðingu, enda mjög dreifbýlt og langt niður á firði í vetrarfærð þegar fjallvegir eru lokaðir. Á svæðinu sé einn frjótæknir og engin afleysingamaður og því fái frjótæknir aldrei frí, en þó eru ekki sæðingar um helgar til að halda aftur af kosnaði. Sveinn lagði til að tekin yrði upp föst gjaldskrá en nú er í gildi gjaldskrá þar sem borgað er fyrir hverja sæðingu og helgarálag. Kynbótastöð Suðurlands tekur við sæðingunum 1. janúar og mögulega verður einum frjótækni bætt við á Suðurfjörðunum til að spara í akstri. Sveinn kynnti vinnu Þorsteins Ólafssonar sem er dýralæknir nautastöðvarinnar. Hann sé að vinna í að reikna út frjósemistölu, F-tölu, fyrir öll bú á landinu auk þess sem hann blandar sæði á nautastöðinni, tekur á frjósemisvandamálum á einstaka búum og aðstoðar frjótækna við að bæta tækni sína og fanghlutfall.
Valdimar spurði hvernig staðan væri á Stóra-Ármóti.
Sveinn svaraði því að Grétar Hrafn Harðarson sé að hætta sem tilraunastjóri á Stóra-Ármóti eftir áramót, enda hættir hann hjá LbhÍ. Til standi að gera rannsókn á Stóra-Ármóti eftir áramót til að rannsaka áhrif fóðrunar á efnainnihald í mjólk, einkum fitu. Þróunarsjóður nautgriparæktar hafi styrkt það verkefni. Nú séu einnig breyttir tímar í rekstri búsins, það skili 6-8 milljón króna hagnaði á ári. Ýmsar ástæður séu, s.s. tekjur af heitu vatni, rekstrarfé vegna samstarfs við LbhÍ. Fjárhúsið sé að verða tilbúið og að féð yrði tekið inn í nóvemberlok eða byrjun desember.
Verlagning mjólkur
Samúel ræddi verðlagningu á mjólk. Grundvallarmjólk hvers árs væri ákveðin út frá meðal verðefnahlutfalli ársins á undan. Hann velti því fyrir sér hvort væri ekki hægt að setja mörkin sem lægst og svo gæti hver og einn bóndi ákveðið fyrir sig hvort hann vilji leggja inn verðmætari mjólk og þannig fengið meira fyrir hvern líter.
Félagsráðsfundi slitið kl. 13.30.
Að lokum félagsráðsfundi var haldinn almennur fræðslufundur fyrir sunnlenska bændur. Þrjú erindi voru flutt. Guðmundur Jóhannesson reið á vaðið og talaði um framleiðslumál, bæði mjólkurframleiðslu og nautakjötsframleiðslu. Þá fór hann einnig nokkuð vel yfir það hvernig nýta megi Huppu.is sem verkfæri til bústjórnar. Þar sé hægt að finna allskyns skýrslur um frjósemi, mjólkurframleiðslu, nautakjötsframleiðslu, lykiltölur um hjörðina og margt fleira.
Næst hélt Jóna Þórunn Ragnarsdóttir tölu um fóðrun. Hún fór yfir heysýnaniðurstöður sumarsins en einnig mismunandi aðstæður á búunum, s.s. stærð kúnna og hvernig hún hefur áhrif á kjarnfóðurgjöf og át gripa. Því næst fór hún í gegnum 3 ólík tilfelli við fóðuráætlanagerð – mjög snemmslegið fóður með litlu tréni og hverju val á kjarnfóðurblöndu skiptir í þeim efnum, mjög seint slegið fóður með miklu tréni og háum hluta ómeltanlegs trénis og að lokum meðalheyjum eftir sumarið og hverju það skiptir upp á kjarnfóðurmagn og val á kjarnfóðurblöndu.
Að lokum hélt Runólfur Sigursveinsson fyrirlestur um fjármögnunarleiðir fyrir landbúnað. Hann rakti ólíkt lánafyrirkomulag, vexti og hvaða lánastofnanir veita lán til fjármögnunar í landbúnaði. Hann fór með annars yfir það að þó svo að Seðlabanki Íslands hefði lækkað stýrivexti nýverið breyttust lánakjör hjá viðskiptabönkunum lítið.

Ályktun félagsráðs FKS
Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi lýsir áhyggjum yfir stöðu menntunar og rannsóknarmála í íslenskri nautgriparækt. Það er ljóst að staðan er alvarleg og hallar mjög undan fæti þessi misserin.
Greinargerð:
Ástæður þessa eru bæði fjárhagslegar og skipulagslegar. Ekki fást starfskraftar með gott menntunarstig og margir góðir kennarar hafa horfið frá kennslu síðustu árin og virðist svo einnig nú framundan. Verkleg kennsla er, og hefur ekki, verið mikil á Hvanneyri og sætir það nokkurri furðu.
Framhaldsmenntun glímir við sömu vandamál og sem dæmi virðist nú hreinlega vanta hvatningu, lista og ábendingar um ritgerðarefni hjá nemendum í nautgriparækt. Jafnvel þó næg séu til í öðrum búgreinum.
Þannig samþykkt, Selfossi nóvember 2014.
Stjórn og félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi.
Jóna Þórunn Ragnarsdóttir ritaði fundargerð.


back to top