Dauðfædd lömb

Í síðasta Bændablaði sem út kom í maíbyrjun var fjallað um rannsóknaverkefni  sem ætlað er að leita orsaka lambadauða. Leitað er sérstaklega eftir því að fá til rannsóknar lömb, sem deyja frá því 1-2 vikum fyrir tal og fram til 1-2ja daga aldurs þ.e. dauðfædd lömb og veikburða.

Um er að ræða framhald verkefnis, sem byrjaði á síðasliðnu vori. Þá skiluðu sér færri lömb til rannsóknar en vænst var. Nú á að reyna að ná sem flestum lömbum, svo að niðurstöður geti orðið marktækari. Fagráð í sauðfjárrækt stendur að verkefninu. Upplýsingar um það gefa Emma Eyþórsdóttir Hjá Landbúnaðarháskólanum, Jón Viðar Jónmundsson hjá Bændasamtökum Íslands og Sigurður Sigurðarson dýralæknir hjá Landbúnaðarstofnun.

Til að koma til móts við bændur og létta mönnum sendingu á lömbum hefur verið komið upp söfnunarstöðum fyrir lömb út um land, þar sem menn geta látið lömbin sjálfir í einangrað fiskikar eða kælikistu. Ef kæling er nógu góð, má í flestum tilfellum geyma lömbin allt að viku. Héraðsdýralæknar og búnaðarráðunautar vita um þessa staði og líta eftir þeim. Þeir sem vilja láta athuga slík lömb þurfa að hafa samband við Sigurð dýralækni í síma og svara spurningum um vandamálið. Lömbin á ekki að frysta en koma þeim í kælingu strax heima á bænum til að hindra rotnun og tryggja árangur. Þau má geyma heima, ef kæling er góð og samfelld og koma þeim síðan á söfnunarstaðinn áður en komið er til að kryfja, en Sigurður mun vitja um söfnunarstaðina og kryfja lömbin sem næst vikulega, yfirleitt um helgar, koma sýnum til rannsóknar á Keldum sem nauðsynlegt er að taka, og láta menn vita um niðurstöðu krufningarinnar jafnharðan. Til kælingar má nota ís eða snjó í lokuðum pokum, frystikubba eða það sem kannski er einfaldast, leggja hjá hverju lambi í poka eða kassa 1-2 litlar plastflöskur með frosnu vatni, sem menn hafa tiltækar í frystikistunni.


Framlag bænda til verkefnisins verður það að koma lambshræjum í kælingu strax heima á bænum, merkja þau eiganda ásamt símanúmeri og gjarna tölvupóstfangi og gefa upplýsingar um hvert lamb, móður og hjörðina, hvort um var að ræða einlembing eða tvílembing, hvort lífsmark eða sjúkdómseinkenni fundust með lambinu eða móðurinni, hvort bæði lömbin dóu eða annað lifði, hvort hildir komu eðlilega og hver brögð eru að lambadauða og gefa svo seinna nánari upplýsingar um búið svo sem fóður og hirðingu o.fl. vegna samanburðar við leit að orsökum.


Ef betur hentar og svar þolir ekki bið vegna hugsanlegra aðgerða, geta menn sent lömb í þessa rannsókn beint að Keldum án þess að þurfa að greiða annað en sendingarkostnað.
Annað svo sem fósturlát, lömb dauð fyrir nokkru og lömb sem fæðast eðlileg en veikjast 2-3ja daga eða eldri, sem útheimta sýklarannsókn , ætti að senda beint að Keldum til rannsóknar eins og áður. Löngu dauð og rotnuð fóstur er yfirleitt vonlítið að ráða í en gagnlegt er að halda saman upplýsingum um allt slíkt og rifja upp það sem gerðist á fyrri árum vegna upplýsingasöfnunar seinna. Mikilvægt er, hvort sem sent er að Keldum eða á söfnunarstaðina, að ná hildum til rannsóknar og höfuðmál er að kæla allt strax. Best er að þurfa ekki að frysta hræin, en ef líklegt er að lengri tími líði en vika í góðri kælingu frá því að lambið fæðist og þar til rannsókn getur farið fram, verður að frysta hræin,

Símanúmer Sigurðar er 892-1644 og tölvupóstfangið er sigsig@hi.is og sigsig@lbs.is (best er að hringja og/eða senda póst á bæði póstföngin).Söfnunarstaður á Suðurlandi fyrir dauð lömb:
Við gamla sláturhúsið Höfn á Selfossi, sem er á bak við húsnæðið þar sem verslunin KRÓNAN var áður til húsa, hefur fengist aðstaða í vor til að safna saman lömbum til rannsóknar og vinna við krufningu. Ekið er inn Kirkjuveg frá Eyrarvegi, svo strax inn á Heiðarveg. Bak við sláturhúsið gamla við dyrnar með skýlinu eru fiskikör fyrir lömbin og lítill gámur fyrir úrganginn. Hér geta menn látið lömbin ásamt kæliflöskum eða kubbum. Karið er merkt LÖMB TIL KRUFNINGAR. Um þau verður vitjað reglulega á sauðburði og krufið það sem komið verður og eigendur látnir vita jafnharðan. Ef Sigurður er ekki við, má láta vita um sendingu á lambi til Landbúnaðarstofnunar 530 4800, en best er, ef menn geta sjálfir gert ráðstafanir til að koma sem fyrst og í örugga kælingu á réttan stað lömbum, sem þeir senda. Ef betur hentar að senda lömb beint að Keldum, er það hægt eins og áður.


back to top