Dagatal ungra bænda fyrir árið 2012

Líkt og í fyrra stóðu Samtök ungra bænda fyrir ljósmyndasamkeppni fyrr á þessu ári vegna útgáfu dagatals fyrir árið 2012. Rúmlega 100 ljósmyndir bárust inn í keppnina og prýða tólf þær bestu að mati dómnefndar nú dagatal ungra bænda árið 2012. Bjarkey Sigurðardóttir hafði umsjón með útgáfu dagatalsins en ásamt henni í dómnefnd voru þeir Eyþór Ingi Jónsson og Hörður Elís Finnbogason.
Dagatalið kostar 2.000 krónur og rennur ágóðinn af sölu þess til samtakanna og landshlutafélaganna sem þeim tilheyra. Dagatalið verður til sölu hjá landshlutafélögunum og er mönnum bent á að hafa samband við stjórnarmenn á hverju svæði fyrir sig. Þá er hægt að hafa samband við stjórn samtakanna, t.d. með því að senda póst á vefstjóra. Dagatalið er einnig til sölu hér hjá Búnaðarsambandinu.

Forsíðumynd dagatalsins að þessu sinn er tekin í Hrunaréttum af Guðbjörgu H. Sigurdórsdóttur og er hún jafnframt sigurvegari ljósmyndasamkeppninnar. Í verðlaun var gjafabréf frá Beco ljósmyndaverslun á Langholtsvegi í Reykjavík.


Auk myndar Guðbjörgar eiga eftirtaldir myndir í dagatalinu: Hermann Snorri Hoffritz, Elís Þór Sigurðsson, Hólmfríður Lilja Böðvarsdóttir, Halla Eygló Sveinsdóttir, Halldóra Andrésdóttir, Sigrún Jóna Jónsdóttir, Axel Páll Einarsson, Helga Hrönn Óladóttir, Kristín Finndís Jónsdóttir og Sólveig Björg Hlöðversdóttir.


back to top