Búnaðarþingi lauk í gærkvöldi
Búnaðarþingi 2012 lauk á ellefta tímanum í gærkvöldi. Meðal helstu mála þingsins voru sameining ráðgjafarþjónustu í landbúnaði en búnaðarþingsfulltrúar samþykktu að stefnt skuli að sameiningu ráðgjafarstarfsemi búnaðarsambandanna og Bændasamtaka Íslands í eina rekstrareiningu. Sú vinna mun hefjast á næstu misserum þar sem Bændasamtökin, búnaðarsambönd og leiðbeiningamiðstöðvar þurfa að komast að niðurstöðu um fyrirkomulag á yfirfærslu starfsmanna, búnaðar og önnur þau atriði sem máli skipta við uppbyggingu nýs fyrirkomulags.
Þá var þess krafist í ályktun þingsins að eigendur búfjár og dýra geti nálgast dýralæknaþjónustu innan skynsamlegra tímamarka um landið allt. Með breytingum á lögum um dýralæknaþjónustu eru þjónustusvæði dýralækna víða orðin það stór að tæpast er hægt að segja að um virka neyðarþjónustu sé að ræða, segir enn fremur í ályktuninni. Nauðsynlegt er að fara yfir stöðu dýralæknaþjónustu um allt land með það að markmiði að sníða af vankanta. Þá vill búnaðarþing að heimild verði veitt til að bændur geti átt lyf og hafið lyfjameðferð í samráði við dýralækni hafi þeir lokið námskeiði um meðferð lyfja.
Búnaðarþing skoraði í ályktun á sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra að hefja viðræður við Bændasamtökin um framlengingu gildandi búvörusamninga með það að markmiði að treysta rekstrarumhverfi bænda, skapa stöðugleika og áframhaldandi framþróun viðkomandi búgreina.
Búnaðarþing ályktaði um aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins eins og undanfarin ár. Í ályktuninni er þess krafist að varnarlínur Bændasamtakanna verði virtar og stjórnvöld setji tafarlaust fram samningsmarkmið sem verndi með skýrum hætti hagsmuni íslensks landbúnaðar.
Að þessu sinni lágu 24 mál fyrir búnaðarþingi um hin aðskiljanlegu málefni. Verið er að ljúka skjalavinnslu og munu afgreidd mál birtast á heimasíðu Bændasamtakanna, bondi.is, innan tíðar.
Sjá nánar:
Málaskrá búnaðarþings 2012
Búnaðarþingi lauk í gærkvöldi
Búnaðarþingi lauk seint í gærkvöldi (miðvikudag) og þingfulltrúar héldu til síns heima. Á vef Bændasamtakanna er hægt að skoða niðurstöður mála auk fundargerða og annars fylgiefnis, smellið hér.
Haraldur Benediksson formaður BÍ hafði á orði við þingslitin að sjaldan hefði verið ríkjandi eins mikill einhugur í þingheimi eins og nú. Samheldni bænda væri góð og mikilvægt að viðhalda henni í þeirri baráttu sem er framundan vegna ESB-mála.
(meira…)